„Við fáum jólabónus skattaðan en óskertan, en hjá veiku fólki og eldri borgurum er hann skattaður og keðjuverkandi skertur í ekkert, ekki krónu,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, á Alþingi í morgun.
Guðmundur Ingi gerði þar desemberuppbótina í ár að umtalefni og benti á að samkvæmt kjarasamningum VR væri hún 94.000 krónur fyrir árið 2020 miðað við fullt starf.
„Atvinnulausir fá um 85.000 kr., en eldri borgarar og öryrkjar um 45.000 kr. Þingmenn fá um 185.000 kr. launauppbót fyrir jólin. Af þessum 94.000 kr. greiða VR-félagar að meðaltali um 40% skatt sem þýðir að þeir fá útborgað um 56.000 kr. af þessum 95.000 kr. Af þeim 185.000 kr. sem þingmenn fá eru eftir skatt um 110.000 kr. desemberuppbót örörkulífeyrisþega nemur 45.000 kr. eða 30.000 kr. eftir skatt. En hún er síðan skert hjá stórum hóp lífeyrisþega en ekki hjá okkur þingmönnum eða þeim sem eru á vinnumarkaði,“ sagði Guðmundur.
Hann sagði það stórfurðulegt að veiku fólki og eldri borgurum væri „dýft á kaf í skerðingarpyttinn“ og velti hann fyrir sér hvort Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra þætti þetta sanngjarnt.
„Ríkisstjórnin setur upp mismununaragleraugun og taumlausa skerðingarsamviskuleysið með keðjuverkandi skerðingum fyrir jólin til þess eins að skerða desemberuppbót vegna lífeyrissjóðslauna niður í núll. Ekkert,“ sagði hann og spurði Bjarna hvernig svona skattstefna inn í málefni Sjálfstæðismanna?
„Fyrst er skattað, svo er keðjuverkandi skattur niður í núll eða 100% skattur. Finnst hæstvirtum fjármálaráðherra þetta sanngjarnt? Ef svo er, hvers vegna? Ef ekki, er hann þá tilbúinn til að berjast fyrir því að þessi 45.000 kr. jólabónus sem eldri borgarar og öryrkjar fá verði skatt- og skerðingarlaus um næstu mánaðamót? Skatt- og skerðingarlausar 45.000 kr.“
Bjarni svaraði hvorki af eða á en sagði að ákveða þyrfti hvað ráðstafa ætti háaum fjárhæðum í sérstöku desemberuppbótina og fara yfir hvernig hún skilar sér. „En mín skoðun er eftir sem áður sú að það er auðvitað best að það skili sér sem mest til þeirra sem hafa minnst.“