Þingmenn fengu 10 sinnum meira en öryrkjar

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, segir að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sé kominn í stríð við öryrkja.

„Honum finnst allar hækkanir undanfarinna ára hafa runnið í vasa öryrkja vegna þess að framlög til almannatrygginga hafa tvöfaldast á ákveðnu tímabili,“ sagði hann á Alþingi í gær og bætti við að „ofbeldið“ hjá ríkisstjórninni birtist í mörgum myndum.

„Eins og t.d. því að króna á móti krónu er bara 65 aurar á móti krónu. Hvað hefur ríkið sparað sér mikið nú þegar við að hafa þetta svona? Jú, yfir 50 milljarðar hafa sparast vegna þess að öryrkjar hafa ekki fengið krónu á móti krónu burt eins og allir flokkar sem núna eru við völd lofuðu. Því miður verða næstu mánaðamót erfið fyrir öryrkja. Því miður heldur ofbeldið áfram. Öryrkjar þurfa að fara í röð eftir mat, þeir sem geta, og þeir sem geta það ekki þurfa að herða sultarólina enn meira.“

Guðmundur Ingi spurði hvers vegna ekki væri farið eftir launaþróun í málefnum öryrkja og af hverju þeir fá ekki kjaragliðnum leiðrétta.

„Af hverju fengu þingmenn svo til á einni nóttu um 700.000 kr. hækkun en öryrkjar bara 60.000 yfir ákveðið tímabil? Af hverju? Er þetta sanngjarnt? Hvernig í ósköpunum ætlið þið að réttlæta það, og ég vil fá svar við því, að öryrkjar og ellilífeyrisþegar eiga að lifa á 70.000–80.000 kr. minna á mánuði en lægstu laun eru? Svarið því, þið sem eruð í ríkisstjórn, hvers vegna það er. Hvað er það í fari þeirra sem veldur því að þið teljið að öryrkjar eigi ekki aðeins að lifa í fátækt, ekki í sárafátækt heldur eigi að svelta og eiga ekki fyrir lyfjum, mat eða öðrum nauðsynjum?“

Guðmundur Ingi Kristinsson alþingismaður og varaformaður flokks fólksins

Deila