Kæru stuðningsmenn, þið sem hafið byggt flokkinn okkar upp eins fallega og raun ber vitni, þúsund þakkir fyrir allt. Ég er auðmjúk og óendanlega þakklát fyrir allar kveðjurnar, fyrir allt traustið, alla hvatninguna og hlýjuna sem þið hafið veitt okkur fambjóðendum Flokks fólksins á þessari ótrúlegu vegferð. Með ykkur var kosningabaráttan hlaðin bjartsýni og brosi. Þið hafið eignast sex frábæra fulltrúa á Alþingi Íslendinga sem allir munu berjast af hugsjón og öllum kröftum fyrir betra og sanngjarnara samfélagi fyrir alla landsmenn. Flokkur fólksins hefur ávallt barist fyrir réttlæti og gegn fátækt. Við munum aldrei missa sjónar á því sem skiptir mestu máli því að lífsgæði eru ekki einkaréttur útvalinna.
Mörgum kom á óvart þegar Flokkur fólksins náði þeim frábæra árangri í kosningunum sem raunin varð, mun betri árangri en kannanir höfðu gefið til kynna. Flestir spáspekingar töldu framan af að litlar líkur væru á að flokkurinn næði aftur á þing. Ítrekað látið í veðri vaka að óheppilegt væri að hafa of marga flokka á þingi. Myndin sem dregin var upp fyrir kjósendur var sú að atkvæði greitt Flokki fólksins gæti hugsanlega stuðlað að stjórnarkreppu í landinu. Einnig var ítrekað rætt um að atkvæði kjósenda Flokks fólksins gætu dottið niður dauð ef flokkurinn næði ekki yfir 5% múrinn. Allt annað kom á daginn.
Flokkur fólksins og Framsóknarflokkurinn eru óumdeildir sigurvegarar kosninganna. Þessir flokkar eiga það sameiginlegt að hafa lagt mikla áherslu á málefni öryrkja, eldra fólks, barna og fátækra. Niðurstöður kosninganna eru skýrt ákall frá kjósendum til löggjafans um að styrkja verði stöðu þessara hópa. Það er ekki hægt að bíða lengur eftir réttlætinu.
Flest bendir til þess að fráfarandi ríkisstjórn haldi áfram samstarfi sínu næstu fjögur árin. Verði svo, vona ég af öllu hjarta að hún hlýði kalli kjósenda og fylgi eftir eigin loforðum um að bæta kjör þeirra sem biðja um hjálp. Við í Flokki fólksins munum styðja öll mál sem ganga út á að útrýma fátækt. Það er í valdi Alþingis að brjóta múrana og bæta kjörin.
Kæru alþingismenn og verðandi ríkisstjórn!
Tökum saman höndum hvar í flokki sem við stöndum og sýnum í verki að við erum traustsins verð. Tryggjum réttlæti fyrir alla í okkar ríka landi.
Fólkið fyrst – svo allt hitt!