Ég varð virkilega undrandi og ef satt skal segja döpur þann 7. september þegar ég opnaði Stundina og sá fyrirsögnina „Tillögur Flokks fólksins í skattmálum kosta ríkissjóð á annan hundrað milljarða.“ Ég róaðist þó fljótlega þegar ég las greinina enda fullyrðingar um kostnað upp á hundruði milljarða ekki fengnar úr tillögum Flokks fólksins. Það kemur mér yfirleitt ekki á óvart að lesa óvandaða og falska umfjöllun um mál Flokks fólksins, en mín reynsla af fréttum Stundarinnar hefur hingað til verið jákvæð. Því vil ég trúa, að hér hafi einungis verið um misskilning að ræða sem ég finn mig knúna til að leiðrétta.
Í grein Stundarinnar er ýjað að því að tillögur Flokks fólksins myndu ganga langt með að setja ríkissjóð á hausinn. Vísað er í svör fjármálaráðherra við fyrirspurn um hvað það myndi kosta að hækka skattleysismörk upp í 350.000 kr. á mánuði með flatri hækkun á alla launaþega. Flokkur fólksins hefur aldrei lagt fram slíkar tillögur. Aldrei!
Við höfum alla tíð talað um að taka upp fallandi persónuafslátt sem myndi tryggja láglaunafólki 350.000 kr. skattleysismörk með tilfærslu innan skattkerfisins. Hálaunafólk myndi hafa lægri persónuafslátt en láglaunafólk hærri. Persónuafslátturinn myndi þannig tryggja láglaunafólki 350.000 kr. skattleysismörk, en eftir því sem tekjur aukast lækka skattleysismörk viðkomandi. Í einföldu máli vill Flokkur fólksins lækka persónuafsláttinn hjá þeim sem hafa háar tekjur en hækka hann hjá þeim sem eru með tekjur undir meðallaunum.
Með þessari tilfærslu í skattkerfinu er hægt að hækka skattleysismörk hjá þeim sem hafa lægstu launin. Hægt að taka utan um þá sem eru múraðir inn í rammgerðum fátæktargildrum og það án þess að kostnaður ríkissjóðs við slíka aðgerð verði umfangsmikill. Þessi aðgerð myndi t.d. lækka skatta hjá lágtekjufólki töluvert meira en nýja lágtekjuskattþrepið sem ríkisstjórnin kynnti í lok ársins 2019 og hælir sér hvað mest af. Skattalækkun sem skilaði fátæku fólki aðeins nokkur þúsund krónum á mánuði. En það sem daprara er það skilað þeim ríku því sama og kostaði ríkissjóð vel yfir 20 milljarða króna.
Flokkur fólksins hefur margoft rætt um og einnig mælt fyrir málinu á Alþingi, margoft skrifað greinagerðir um það og fengið sérfræðinga til að vinna skýrslur því samhliða. Allt þetta er sjáanlegt á heimasíðu Alþingis, althingi.is Það er virkilega miður að fréttamaður Stundarinnar dragi fram kostnaðartölur vegna einhvers allt annars en Flokkur fólksins leggur til. Þess vegna finn ég mig knúna til að leiðrétta þennan leiða misskilning.
Inga Sæland