Meirihluta borgarstjórnar felldi í gær tillögu Flokks fólksins um að öll börn í leik- og grunnskólum fái fríar skólamáltíðir. Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, hefur í þrígang reynt að koma þessari tillögu í gegn og einu sinni lagt til að lækka gjaldið fyrir skólamáltíðir.
Tillagan fól í sér að fjárheimildir skóla- og frístundaráðs yrðu hækkaðar um rúma 1,8 milljarða vegna tekjulækkunar og þeim kostnaði yrði fjármagnað af handbæru fé og leitað að fjármagni á öðrum sviðum.
Tillagan var felld á borgarstjórnarfundi í gær með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við afgreiðslu málsins. Ókeypis skólamáltíðir eru sagðar mundu kosta skólasvið Reykjavíkurborgar nærri tvo milljarða króna á ári.
„Eins og vitað er búa mörg börn við mismunandi aðstæður hvað varðar efnahag foreldra. Sum búa við sára fátækt og eru því svöng í skólanum. Eina leiðin til að tryggja að ekkert barn sé svangt í skólanum er að þau fái fríar skólamáltíðir,“ segir í greinargerðinni en flokkurinn leggur jafnframt til að leitað verði leiða til að spara í rekstri til að koma til móts við útgjöldin með því að minnka matarsóun.
„Í ljós hefur komið í rannsóknum að mun meiri matarsóun er í íslenskum grunnskólum en í nágrannalöndunum. Með átaki gegn matarsóun er hægt að draga kostnað við máltíðir skóla niður á sama tíma og hugað er að umhverfismálum.“
Kolbrún bendir á í greinargerð sinni að efnahagsstafa foreldra sé misjöfn og mikilvægt sé að börn sitji við sama borð þegar kemur að grunnþörfum eins og að fá að borða. „Börnum á ekki að vera mismunað vegna fjárhagsstöðu foreldra þeirra. Fordæmi er nú þegar fyrir fríum skólamáltíðum eða lækkun gjalds skólamáltíða í öðrum sveitarfélögum og ætti Reykjavík ekki að láta sitt eftir liggja.