Ég hef margoft gagnrýnt þá rörsýn sem birtist í glórulausum vaxtahækkunum sem einu aðgerðunum gegn verðbólgu.
Flokkur fólksins hefur lagt fram margar tillögur til að hemja verðbólgu eins og t.d. tímabundna frystingu verðtryggingar á leigu og lánum, afturköllun á lækkun bankaskatts og leigubremsu, til að hamla gríðarlegum hækkunum á stjórnlausum leigumarkaði, svo nokkuð sé nefnt.
Á ekkert af þessu hefur verið hlustað; ríkisstjórnin er með rörsýn á einstefnu til glötunar.
Afleiðingin af því er að nú á sér stað gríðarleg eignatilfærsla þar sem fjármunum heimila og fyrirtækja er beint á færibandi til bankanna í formi vaxtagreiðslna, undir því yfirskini að verið sé að berjast gegn verðbólgu.
Enginn vill ræða þá staðreynd að bankar og lífeyrissjóðir, sem stærstu fjármagnseigendur landsins, geta, eins og þeir hafa margoft gert, haft gríðarleg áhrif á verðbólgu á Íslandi.
Það er því gjörsamlega glórulaust að hagsmunaaðilar eins og bankar og lífeyrissjóðir hagnist með beinum hætti á verðbólgu og forgangsatriði að koma í veg fyrir að verðbólga færi ekki sjálfkrafa fjármuni heimilanna í þeirra fjárhirslur.
Þvert á móti þarf að skapa hvata fyrir þá til að halda verðbólgu niðri.
Í síðustu viku skrifuðum við Ragnar Þór formaður VR grein þar sem viðruð var hugmynd um tímabundinn „þrepaskiptan skyldusparnað“ sem ætti að koma í stað vaxtahækkana, til að hamla þenslu og minnka ráðstöfunarfé heimilanna sem er yfirlýstur tilgangur þeirra.
Að sjálfsögðu þyrfti að vanda útfærslu en grundvallaratriðið er að þessi skyldusparnaður væri þrepaskiptur og að aldrei á nokkrum tímapunkti ætti að leggja þessar álögur á þau sem minnstar hafa tekjurnar því aldrei á að skattleggja fátækt!
Þvert á móti myndi þessi skyldusparnaður hafa mest áhrif á þau sem mestar hafa tekjurnar. Því er einmitt öfugt farið með vaxtahækkanir því þær leggjast þyngst á þá sem minnst hafa og mest skulda, eins og t.d. fyrstu kaupendur.
Þrepaskiptur skyldusparnaður myndi þýða mikið lægri álögur á heimilin, ná betri árangri en vaxtahækkanir og ná að slá á neyslu þeirra tekjuhæstu ásamt því að hlífa þeim tekjulægstu.
Þegar síðan væri þörf á innspýtingu í hagkerfið myndu þessir fjármunir skila sér aftur til heimilanna, í stað þess að fita bara bankana.
Þessi tillaga væri mikilvægur liður í því að skapa hvata fyrir bankana til að halda verðbólgu niðri, auk þess að stuðla að ábyrgari peningamálastjórnun varðandi peningamagn í umferð og fleira sem hefur áhrif á verðbólguna.
Að sjálfsögðu þarf að vanda útfærsluna, en í grunninn má segja að það er ALLT betra en núverandi fyrirkomulag og kominn tími á nýjar lausnir.