Andleg vanlíðan virðist útbreidd meðal aldraðra. Ótal ástæður verða til þess að andlegri heilsu getur hrakað með hækkandi aldri. Félagsleg hlutverk breytast og geta til athafna daglegs lífs minnkar. Aðstæður breytast t.d. vegna ástvinamissis. Líkamlegri heilsu hrakar. Fólk neyðist til að yfirgefa heimili sín og flytja inn á stofnanir. Farsóttin sem hefur ógnað okkur síðasta tæpa árið hefur ekki bætt úr skák og bitnað illa á eldri borgurum sem hafa einangrast enn frekar. Í Covid-faraldrinum síðustu mánuði hafa þróast tæknilausnir eins og samskipti með viðræðum gegnum tölvuskjái. Slíkar „skjáheimsóknir“ geta þó aldrei komið í staðinn fyrir persónuleg tengsl og spjall þar sem fólk talar saman maður við mann. Aldrei skyldi vanmeta áhrif einmanaleika og söknuðar eftir ástvinum og þess sem liðið er.
Veikustu eldri borgararnir eru á hjúkrunarheimilum. Hjúkrunarheimili í Reykjavík bjóða ekki upp á nein skipulögð sálfélagsleg meðferðarúrræði fyrir íbúana. Oft er geðlyfjameðferð eina úrræðið sem eldri borgurum býðst þegar þeir þjást af andlegri vanlíðan. Reynt er að bjarga málum í horn með því að mata fólkið á lyfjum. Þetta er óboðlegt í ljósi mannhelgi, mannréttinda og mannlegrar reisnar.
Hver vill þurfa að eyða ævikvöldinu undir áhrifum geðlyfja? Kannanir sýna mikla notkun geðlyfja hjá öldruðum á Íslandi án þess að formleg geðgreining liggi fyrir. Ekki eru heldur skýr tengsl milli geðsjúkdómsgreininga og geðlyfjanotkunar meðal íbúa hjúkrunarheimila. Nú í ársbyrjun birtist áhugaverð fræðigrein í Læknablaðinu eftir Pál Biering, geðhjúkrunarfræðing við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, og Ingibjörgu Hjaltadóttur, sérfræðing í öldrunarhjúkrun á meðferðarsviði Landspítala. Titill hennar er „Algengi og þróun geðraskana og geðlyfjanotkunar meðal íbúa íslenskra hjúkrunarheimila frá 2003 til 2018“ og greinina má finna á netinu.
Rannsókn þeirra Páls og Ingibjargar sýnir að um það bil helmingur íbúa hjúkrunarheimila þjáist af kvíða, þunglyndi eða hvoru tveggja. Neysla geðlyfja jókst á tímabilinu úr 66,3% í 72,5%. Neysla geðrofslyfja er í kringum 26%. Fólki eru jafnvel gefin geðlyf án þess að greining liggi fyrir. Tæpur fimmtungur er þannig á slíkum lyfjum án þess að hafa greiningu.
Flokkur fólksins hefur lagt til að borgarstjórn samþykki að stofna sálfélagslegt meðferðarúrræði fyrir eldri borgara sem búa á hjúkrunarheimilum eða í heimahúsi til að fyrirbyggja eða draga úr notkun geðlyfja. Þannig verði fyrsta úrræði sem gripið verði til, ekki að gefa fólki geðlyf, heldur veita því sálfélagslega samtalsmeðferð. Með því yrði dregið úr óþarfa geðlyfjanotkun í þessum aldurshópi. Lyfjanotkun er aldrei án aukaverkana. Aldraðir eru einnig viðkvæmari fyrir aukaverkunum geðlyfja ef þeir eru samtímis að taka önnur lyf. Andleg líðan er beintengd líkamlegri líðan og öfugt. Þeim sem líður illa andlega kenna frekar líkamlegra verkja. Að sama skapi draga líkamlegir verkir úr andlegu þreki.
Með því að tala við fólk og sýna því athygli og umhyggju er það virt sem manneskjur. Gefa ætti því aðeins geðlyf að undangenginni greiningu þar sem fram kemur með óyggjandi hætti að viðkomandi þarfnist geðlyfja samhliða öðru úrræði eins og sálfélagslegri samtalsmeðferð, hreyfingu, birtu, samveru við gæludýr, svo fá dæmi séu nefnd.
Tímabært er að velferðaryfirvöld borgarinnar hugi að því að stofna með formlegum hætti úrræði sem byggist ekki aðeins á ávísun lyfja heldur skipulagðri samtalsmeðferð með það að markmiði að hjálpa eldri borgurum að auka andlegan styrk og fá það mesta út úr lífinu. Flest okkar bera væntingar um að ná hárri elli. Vonandi hlýtur tillaga okkar í Flokki fólksins um um sálfélagslegt meðferðarúrræði fyrir fólk á hjúkrunarheimilum og í heimahúsum hljómgrunn í borgarstjórn Reykjavíkur. Ekkert okkar vill búa við andlega vanlíðan á ævikvöldi og eiga á hættu að lifa það í lyfjamóki.