Tómas A. Tómasson genginn til liðs við Flokk fólksins

Þannig er að allar götur frá því að ég opnaði Tomma hamborgara í marz 1981 hefi ég verið ákveðinn að fara út í póitík þegar ég yrði eldri. Það er ekki fyrr en núna um 40 árum síðar sem ég er tilbúinn í slaginn. Þess vegna hefi ég gengið til liðs við Flokk fólksins og stefni á að taka þátt í næstu kosningum til Alþingis. Þetta er stórt skref og algjör viðsnúningur í mínu lífi orðinn sjötíu og eina árs. Þannig að ég verð sjötíu og tveggja þegar kosið verður. Hef varla meira en eitt skot í byssunni, en jú, Joe Biden er sjötíu og átta, svo afhverju ekki.

Ég skal viðurkenna að ég hefi enga reynslu af stjórnmálum og pólitík en einhverstaðar verður maður að byrja.

Það sem ég hef fram að færa er áratuga reynsla af atvinnurekstri og framkvæmdum þar sem ég hef borið fulla ábyrgð á öllum ákvörðunum, framkvæmdum, mannhaldi og gjörðum, frá a til ö. Oft ansi erfitt og erilsamt.

Hafandi sagt þetta þá segi ég: “There have been fortunes made and there have been fortunes lost”. Muhamed Ali, sá frægi boxari, sagði: Það er ekki spurning hversu oft maður er sleginn niður heldur hversu oft maður stendur upp.

Að auki hef ég yfir fimmtíu ára reynslu í ferðaiðnaðinum og þekki í raun lítið annað. Ferðaiðnaðurinn er jú orðin ein af undirstoðum atvinnulífs og gjaldeyristekna á íslandi svo það ætti eitthað að nýtast í baráttunni.

Ég vel Flokk fólksins þar sem hann hefur á stefnu skrá ýmislegt sem er mér að skapi. Til dæmis kjör öryrkja, kjör og aðbúnað eldriborgara þar sem ég er nú orðinn eldriborgari sjálfur. Kjör einstæðra foreldra, verandi einstæður faðir. Ég á 13 ára dóttir sem ég læt mér mjög ant um. Svo ég tali nú ekki um erfitt lif móður minnar sem einstæð móðir. Útrýma fátækt, styðja við bakið á þeim sem minna mega sín og starfa eftir kærleik og almennum góðum gildum.

Ég hef legið undir feldi nú um skeið og hugsað minn gang og fíla mig eins og fuglinn Fönix: “Tilbúinn í slaginn”.

Nú er bara að sjá hvað setur.

Flokkur fólksins.

Áfram veginn!

Deila