Trölli stelur jólunum

Blendnar tilfinningar bærðust í brjósti mér í gær þegar ég sem þingmaður og annar varaformaður fjárlaganefndar Alþingis tók þátt í að greiða atkvæði um fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár.

Þessi fjárlög eru nokkurs konar vatnaskil þeirra áskorana sem þjóðin glímir við vegna Covid-19-faraldursins. Tekjur ríkissjóðs eru í frjálsu falli og útgjöldin aukast sem aldrei fyrr. Í haust var gert ráð fyrir að halli á rekstri ríkissjóðs í ár og þess næsta verði hátt í 600 milljarðar króna. Ríkisstjórnin ætlar að mæta þessu með lántökum. Vandanum er skotið inn í framtíðina.

Staðan hefði ekki þurft að verða svona slæm. Allt sem þurfti frá því að veiran tók að flæða um heimsbyggðina var að beita hörðustu varnaraðgerðum á landamærunum. Það var ekki gert en þó tókst með samtakamætti okkar allra að vinna bug á fyrstu árásahrinu veirunnar. Þá var sú óútskýranlega ákvörðun tekin að yfirgefa varnarstöðuna og hefja innflutning veirunnar á ný. Afleiðingarnar skelfilegar og hafa nú þegar kostað 18 einstaklinga lífið. Við búum á eyju þar sem stjórnvöldum er í lófa lagið að hafa fullkomna stjórn á landamærunum. Þeim átti, og á enn, að halda lokuðum nema fyrir nauðsynlegri umferð og þá undir ströngustu sóttvörnum og eftirliti.

Ef þeirri stefnu hefði verið fylgt lifði þjóðin í veirulausu landi núna. Önnum kafin við að njóta aðventunnar. Fara út að versla, borða, í leikhús, ræktina, á tónleika og bara allt til að njóta samveru við ættingja og vini. Við hefðum sjálf fleytt hagkerfinu áfram á meðan við biðum bóluefnis.

Í staðinn stöndum við andspænis vafasömu Íslandsmeti í hallarekstri þjóðarbúsins. Vegna dýrkeyptra mistaka leiðir nú haltur blindan í hagkerfi þar sem miklar hömlur eru á athafnafrelsi fólks.

Úr því sem komið er geri ég ekki athugasemdir við lántökur ríkissjóðs til að fleyta okkur gegnum kófið. Ég tel hins vegar forgangsröðun fjármuna ranga. Það á alltaf að setja fólkið í fyrsta sæti. Þessi ríkisstjórn gerir það hins vegar alls ekki, og sýndi það svo ekki verður á móti mælt, þegar hún felldi hverja einustu breytingatillögu mína við fjárlögin. Í kreppu er ekki verið að bjarga fátæku fólki frá því að sökkva enn dýpra í örbirgðarfenið. Mér þykir t.d. þungbært að vita að stjórnin vill gefa minkum mat fyrir 160 milljónir á sama tíma og fátækt fólk skal búa við örvinglan. Það að láta fátækt fólk bíða eftir réttlætinu er það sama og að neita því um réttlæti.

Trölli stelur jólunum í boði ríkisstjórnarinnar.

Inga Sæland formaður Flokks fólksins

Deila