Aldraðir hafa lengi þurft að umbera stjórnmálamenn sem sigla undir fölsku flaggi. Fyrir kosningar lofa frambjóðendur upp í ermina á sér í þeirri von að það muni skila auknum fjölda atkvæða á kjördag. Svo kemur í ljós eftir kosningar að aldrei stóð til að efna þessi stóru kosningaloforð. Allt í einu eru loforð gærdagsins orðin pólitískur ómöguleiki og eldri borgurum er sagt að vera sáttir með mylsnuna sem dettur af ríkisstjórnarborðinu.
Þrátt fyrir fögur fyrirheit byrjaði ríkisstjórn Samfylkingar og VG kjörtímabilið frá 2009 til 2013 á því að setja krónu á móti krónu-skerðingar á eldri borgara. Í kosningabaráttunni 2013 sendi formaður Sjálfstæðisflokksins bréf til alls eldra fólks þar sem hann lofaði meðal annars að afnema kjaraskerðingar og tekjutengingu hjá ellilífeyrisþegum. Allir stjórnmálaflokkar hafa lofað því að leiðrétta kjaragliðnunina. Framsóknarflokkurinn undir stjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar lagði sérstaka áherslu á þetta í kosningabaráttunni 2013. Efndu þeir þetta loforð þegar þeir komust til valda? Að sjálfsögðu ekki.
Flokkur fólksins hefur lagt fram fjölda þingmála sem snerta hagsmuni eldra fólks. Þar má nefna m.a. þingmál um afnám skerðingar ellilífeyris vegna launatekna, 100.000 kr. frítekjumark vegna lífeyristekna, þingmál um búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum og afnám vasapeningafyrirkomulagsins illræmda, þingmál um aukið lýðræði og gagnsæi í lífeyrissjóðum og frumvarp um að koma í veg fyrir vaxandi kjaragliðnun með því að láta bætur almannatrygginga hækka í samræmi við launavísitölu. Allt eru þetta sanngirnis- og réttlætismál, mál sem aðrir flokkar hafa sífellt lofað að leggja fram en ekki staðið við. Hvernig má það vera að mannvonska gagnvart þessum þjóðfélagshópi sé eins grímulaus og raun ber vitni? Svarið er, þeim er sama! Verkin sem þeir vinna segja meira en nokkur orð.
Enginn stjórnmálaflokkur hefur lagt fram fleiri þingmál tengd málefnum eldra fólks en Flokkur fólksins. Þrátt fyrir að vera í stjórnarandstöðu hefur Flokkur fólksins náð því fram að hætt hefur verið að telja styrki til tækjakaupa, lyfjakaupa og bensínstyrki til tekna, með tilheyrandi sköttum og skerðingum. Þessi breyting sparar 6.000 eldri borgurum og öryrkjum að meðaltali um 120.000 kr. á ári. Flokkur fólksins vann dómsmál fyrir hönd eldra fólks, þar sem Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að ríkið hefði brotið gegn því með því að skerða greiðslur með afturvirkri og íþyngjandi löggjöf. Niðurstaðan í málinu varð þess valdandi að ríkið þurfti að greiða 29.000 eldri borgurum um sjö milljarða króna. Á síðasta þingfundi kjörtímabilsins 2021 var tillaga Flokks fólksins um að stofna embætti hagsmunafulltrúa aldraðra samþykkt.
Fólkið fyrst, svo allt hitt!