Fjórða bylgja Covid-faraldursins er handan við hornið. Allt fyrir ótrúlega handvömm og veiklyndi ríkisstjórnar sem hefur hvorki getað lært af reynslunni né haft manndóm til að grípa til þeirra aðgerða sem augljóslega hefði átt að gera strax í upphafi faraldursins.
Sérhagsmunagæslan er dýru verði keypt þar sem gamblað er með líf okkar og heilsu eins og hverja aðra söluvöru. Einhvers staðar segir að „brennt barn forðist eldinn“ en þrátt fyrir fyrri reynslu og yfirstandandi hörmungar af Covid í heiminum þá hika íslensk stjórnvöld ekki við að kasta okkur ítrekað á sama bálið, hafa einungis bætt sprekum á eldinn svo það logi enn betur. Hið svokallaða breska afbrigði veirunnar er mun meira smitandi en það sem við áður þekkjum. Það er einmitt það sem við erum að glíma við í dag.
Stjórnvöld áttu og eiga nú strax að loka landinu fyrir allri ónauðsynlegri umferð. Þeir sem geta sýnt fram á nauðsyn þess að fara um landamærin eiga skilyrðislaust að fara í sóttkvíarhús undir ströngu eftirliti. Ef slíkar aðgerðir hefðu verið viðhafðar þá héldum við í dag tæplega 90% hagkerfisins gangandi hér innan lands. Við sjálf nýttum okkur íslenska þjónustu og verslun á sl. ári í miklu ríkara mæli en nokkur hagspá gerði ráð fyrir. Að sjálfsögðu myndum við halda því áfram á meðan við værum að bólusetja og búa til hjarðónæmi; óttalaus án samkomutakmarkana og lokana. En nei, það verður ekki í boði þessarar ríkisstjórnar.
Stöðug áföll þar sem vanhæf stjórnvöld opna og loka á víxl fyrir æðar hagkerfisins eru að valda okkur miklu meira tjóni en ábata vegna aðgerðanna. Ekki bætir úr skák að einhverjir sitjandi ráðherrar, þingmenn og þekktir flokksmenn stærsta stjórnarflokksins, Sjálfstæðisflokks, eru sífellt að grafa undan samstöðu þjóðarinnar í sóttvörnum. Þau sá fræjum efasemda og tortryggni um þær aðgerðir sem reynt er að grípa til svo stöðva megi veiruna.
Þríeykið segir okkur að þeir tveir einstaklingar sem nú brutu sóttkvíarreglur og dreifðu smiti hafi komið til landsins um sl. mánaðamót. Ef þessir einstaklingar hefðu verið í sóttkvíarhúsi þá er ég ekki í nokkrum vafa um að við hefðum ekki fengið 44 innanlandssmit í fangið yfir helgina. Flokkur fólksins fordæmir enn og aftur ríkisstjórn sem grímulaust tekur sérhagsmuni fárra fram yfir almannahag og teflir með því lífi okkar og heilsu í voða. Ríkisstjórn sem er ekki bær til að setja reglur sem halda svo sóttvarnalæknir geti unnið vinnuna sína. Ríkisstjórn sem gerir ekkert með vilja 94% þjóðarinnar sem kallar eftir lokun landamæranna fyrir ónauðsynlegri umferð. Slík ríkisstjórn er vanhæf ríkisstjórn.
Inga Sæland