Vanhæf ríkisstjórn

Inga Sæland

Fjórða bylgja Covid-far­ald­urs­ins er hand­an við hornið. Allt fyr­ir ótrú­lega hand­vömm og veik­lyndi rík­is­stjórn­ar sem hef­ur hvorki getað lært af reynsl­unni né haft mann­dóm til að grípa til þeirra aðgerða sem aug­ljós­lega hefði átt að gera strax í upp­hafi far­ald­urs­ins.

Sér­hags­muna­gæsl­an er dýru verði keypt þar sem gamblað er með líf okk­ar og heilsu eins og hverja aðra sölu­vöru. Ein­hvers staðar seg­ir að „brennt barn forðist eld­inn“ en þrátt fyr­ir fyrri reynslu og yf­ir­stand­andi hörm­ung­ar af Covid í heim­in­um þá hika ís­lensk stjórn­völd ekki við að kasta okk­ur ít­rekað á sama bálið, hafa ein­ung­is bætt sprek­um á eld­inn svo það logi enn bet­ur. Hið svo­kallaða breska af­brigði veirunn­ar er mun meira smit­andi en það sem við áður þekkj­um. Það er ein­mitt það sem við erum að glíma við í dag.

Stjórn­völd áttu og eiga nú strax að loka land­inu fyr­ir allri ónauðsyn­legri um­ferð. Þeir sem geta sýnt fram á nauðsyn þess að fara um landa­mær­in eiga skil­yrðis­laust að fara í sótt­kví­ar­hús und­ir ströngu eft­ir­liti. Ef slík­ar aðgerðir hefðu verið viðhafðar þá héld­um við í dag tæp­lega 90% hag­kerf­is­ins gang­andi hér inn­an lands. Við sjálf nýtt­um okk­ur ís­lenska þjón­ustu og versl­un á sl. ári í miklu rík­ara mæli en nokk­ur hagspá gerði ráð fyr­ir. Að sjálf­sögðu mynd­um við halda því áfram á meðan við vær­um að bólu­setja og búa til hjarðónæmi; ótta­laus án sam­komutak­mark­ana og lok­ana. En nei, það verður ekki í boði þess­ar­ar rík­is­stjórn­ar.

Stöðug áföll þar sem van­hæf stjórn­völd opna og loka á víxl fyr­ir æðar hag­kerf­is­ins eru að valda okk­ur miklu meira tjóni en ábata vegna aðgerðanna. Ekki bæt­ir úr skák að ein­hverj­ir sitj­andi ráðherr­ar, þing­menn og þekkt­ir flokks­menn stærsta stjórn­ar­flokks­ins, Sjálf­stæðis­flokks, eru sí­fellt að grafa und­an sam­stöðu þjóðar­inn­ar í sótt­vörn­um. Þau sá fræj­um efa­semda og tor­tryggni um þær aðgerðir sem reynt er að grípa til svo stöðva megi veiruna.

Þríeykið seg­ir okk­ur að þeir tveir ein­stak­ling­ar sem nú brutu sótt­kví­ar­regl­ur og dreifðu smiti hafi komið til lands­ins um sl. mánaðamót. Ef þess­ir ein­stak­ling­ar hefðu verið í sótt­kví­ar­húsi þá er ég ekki í nokkr­um vafa um að við hefðum ekki fengið 44 inn­an­lands­smit í fangið yfir helg­ina. Flokk­ur fólks­ins for­dæm­ir enn og aft­ur rík­is­stjórn sem grímu­laust tek­ur sér­hags­muni fárra fram yfir al­manna­hag og tefl­ir með því lífi okk­ar og heilsu í voða. Rík­is­stjórn sem er ekki bær til að setja regl­ur sem halda svo sótt­varna­lækn­ir geti unnið vinn­una sína. Rík­is­stjórn sem ger­ir ekk­ert með vilja 94% þjóðar­inn­ar sem kall­ar eft­ir lok­un landa­mær­anna fyr­ir ónauðsyn­legri um­ferð. Slík rík­is­stjórn er van­hæf rík­is­stjórn.

Inga Sæland

Deila