Vanræksla við eldri borgara

Ein alvarlegasta vanræksla stjórnvalda gagnvart eldri borgurum er skortur á dvalar- og hjúkrunarrýmum. Þegar talað er um langa biðlista, grátandi afa og ömmur sem eru flutt hreppaflutningum langt frá eigin fjölskyldum og yfirfulla spítala af fólki sem er of veikt til að vera heima við, er mikilvægt að hafa í huga að ástandið er svona vegna stefnu stjórnvalda. Margar ríkisstjórnir hafa komið og farið án þess að forgangsraða þessu máli, þrátt fyrir fulla vitneskju um þjáningar þúsunda veikra eldri borgara.

Meðalbiðtími eftir hjúkrunarrými árið 2019 var 132 dagar! Búa þarf til ramma sem kemur í veg fyrir þetta. Flokkur fólksins hefur lagt fram þingsályktun þar sem ríki og sveitarfélögum er skylt að útvega öldruðum dvalar- eða hjúkrunarrými eigi síðar en 60 dögum eftir að niðurstöður mats um að viðkomandi eigi rétt á slíku úrræði liggja fyrir. Einnig segir ályktunin að öldruðum einstaklingum sem dvalist hafa lengur en 10 daga á sjúkrahúsi án sérstakrar meðferðar verði strax útvegað pláss í dvalar- eða hjúkrunarrými.

Þessi þingsályktun hefur margoft verið svæfð í fastanefnd þingsins og hefur ekki verið hleypt áfram til atkvæðagreiðslu. Samkvæmt umsögn sem málið fékk frá Embætti landlæknis er helsta áhyggjuefni þeirra eftirfarandi: „Ljóst er að eins og staðan er í dag er engan veginn hægt að tryggja að öldruðum með gilt færni- og heilsumat sé úthlutað dvalar- eða hjúkrunarrými innan 60 daga.“ Það er ekkert annað en hneyksli þegar 60 daga bið eftir þessari grunnheilbrigðisþjónustu er talin of róttæk tillaga til að vera tekin alvarlega. Í raun á þessi tími að vera mun styttri.

Eldra fólki fjölgar hratt vegna hærri lífaldurs og vandinn vex stöðugt. Tíminn til að kippa þessu í lag er núna. Það hlýtur að vera hagsmunamál allra landsmanna að koma í veg fyrir stjórnarstefnu sem stuðlar að kvíða og vanlíðan. Stjórnvöldum ber skylda til að veita öldruðum áhyggjulaust ævikvöld.

  • Sigurjón Arnórsson – framkvæmdastjóri Flokks fólksins

Deila