Það er óhætt að segja að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar hafi rýrnað allverulega á milli ára. Fyrir ári var fjármálaáætlun einnig til umræðu á Alþingi. Ég ætla ekki að fjalla um hana en mig langar til gamans að benda á hvernig aðhald ríkisstjórnarinnar birtist í verki. Aðhaldið og hagræðingin birtist aðallega í því að fjármálaáætlunin hefur rýrnað milli ára, úr 422 blaðsíðum í 198. Þannig hefur það greinilega vafist fyrir þessum þremur fjármálaráðherrum sem komu að gerð hennar að sjóða hana saman.
Við skulum athuga að á gildistíma fjármálaáætlunar er áætlað að skuldir ríkissjóðs vaxi úr 1.790 milljörðum kr. í 2.150 milljarða fyrir árslok 2029 eða um 360 milljarða kr. á fimm árum. Af skuldum ríkisins greiðir ríkissjóður nú um 117 milljarða kr. í vexti. Óhæf ríkisstjórn ber ábyrgð á þeirri efnahagsóreiðu sem við nú glímum við. Það er óumdeilt.
Mér er orðið flökurt af einbeittum vilja þessarar ríkisstjórnar í hreinni aðför að öryrkjum og fötluðu fólki. Af 198 blaðsíðna framtíðarsýn fjármálaáætlunar næstu fimm árin skal m.a spara 10 milljarða með því að fresta leiðréttingu á kjörum öryrkja um áramótin. Kjörum sem hafa setið eftir allt frá efnahagshruninu 2008. Ríflega 100 þúsund krónur vantar upp á mánaðargreiðslur til öryrkja svo þeir hafi fylgt launaþróun á tímabilinu, líkt og lög kveða á um. Einnig er ráðist að fötluðu fólki sem starfar á vernduðum vinnustöðum. Ólögfestur samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks kveði á um að þau eigi að fara á almennan vinnumarkað. Það er rangtúlkun á samningnum og hrein og klár árás á öryggi og velferð fatlaðs fólks.
Það segir allt sem segja þarf um þessa ríkisstjórn að metnaður hennar skuli liggja í að níðast á þeim sem bágast standa í samfélaginu. Það kemur reyndar ekki á óvart því þannig hef ég upplifað hana í þau tæpu sjö ár sem ég hef starfað sem alþingismaður.
Spilling, lögbrot, valdníðsla, vaxandi fátækt, versnandi skuldastaða heimila og fyrirtækja í hárri verðbólgu og okurvaxtaumhverfi, rýrnandi kaupmáttur og aðför að öryrkjum, fötluðum og öldruðum. Innviðir samfélagsins standa á brauðfótum og hnignar dag frá degi. Það er sama hvert litið er nema ef vera skyldi hin styrka stoð fjármálaelítunnar sem fær að blómstra sem aldrei fyrr. Þetta er ríkisstjórn Íslands í hnotskurn sem einbeitir sér helst að því að koma verðmætum eigum þjóðarinnar til vina og vandamanna en níðist á þeim sem þarfnast hennar mest. Þess vegna lagði ég fram vantraust á þessa ríkisstjórn. Ég einfaldlega treysti henni ekki.