Ég er langt frá því hissa á að verðbólgudraugurinnn sé uppvakinn og kominn á flug. Það hefur verið nákvæmlega sama hvernig við í Flokki fólksins höfum hrópað og kallað í æðsta ræðupúlti landsins og krafist forvarna fyrir heimilin. Tómlæti ríkisstjórnarinnar gagnvart fyrirliggjandi vá og vanda heimilanna hefur verið algjört. Gamall draugur kominn á stjá og fer nú ránshendi um óvarin skuldsett heimilin.
Það vita allir hvaða skelfilegu afleiðingar verðtryggð lán höfðu á skuldsett heimili landsins í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Þar tvöfölduðust skuldir heimilanna á einni nóttu og hátt í 15.000 fjölskyldur misstu heimili sín.
Flokkur fólksins hefur varað við því allt frá vormánuðum 2020 að verðbólgan væri handan við hornið og því nauðsynlegt að grípa til forvarnaaðgerða til verndar heimilunum ekki seinna en strax. Þegar þingmenn Flokks fólksins spurðu Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hins vegar hvort ríkisstjórnin hygðist grípa til aðgerða til að verja heimilin gegn alvarlegum afleiðingum verðbólgunnar á verðtryggð lán heimilanna, svaraði ráðherra svo:
Ég hef bara þau svör núna að við sjáum ekki fram á það á þessari stundu að okkur standi mikil ógn af verðbólgunni. Það er ekki gert ráð fyrir neinni óðaverðbólgu vegna gengisfalls eða hækkunar á erlendum mörkuðum.
Nú mælist verðbólgan 5,7% á ársgrundvelli og hefur farið stighækkandi undanfarið þrátt fyrir samhljóm greiningaraðila um að verðbólgan myndi ekki ná sér á flug heldur þvert á móti eins og berlega hefur komið í ljós.
Flokkur fólksins hefur ítrekað mælt fyrir frumvarpi um að frysta vísitölu verðtryggðra húsnæðislána og þannig vernda heimilin fyrir hörðustu áhrifum verðbólgu. Við höfum einnig lagt til að samhliða verði bannað að veita verðtryggð neytendalán. Hér er um einstaklega mikilvægt mál að ræða sem nauðsynlegt er að komi til framkvæmda strax. Kallað hefur verið eftir nákvæmlega þessari aðgerð í áraraðir, nánast síðan þessi ófögnuður var settur á lánin. Af hverju eiga lánardrottnar ekki að taka sömu áhættu á útlánum sínum og viðskiptavinir þeirra þurfa að gera? Af hverju eru það ætíð peningaöflin í landinu sem eru tryggð með belti og axlabönd á meðan almenningi blæðir? Ætlar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að samþykkja það að 30 millj. króna húsnæðislán hækki greiðslubyrði lántakans um ríflega hálfa milljón á ári eins og nú stefnir í? Ætlar ríkisstjórnin að sigla sofandi að feigðarósi á meðan fjölskyldunum blæðir út og þúsundir þeirra verða gjaldþrota og missa heimili sín á verðbólgubáli verðtryggingarinnar eins og í kjölfar hrunsins? Ég vona svo sannarlega ekki.