Við í Flokki fólksins lýsum yfir þungum áhyggjum vegna stighækkandi verðbólgu og þeirra afleiðinga sem þetta getur haft fyrir íslensk heimili. Verðbólgan hér á landi mældist 4,6 prósent nú um síðustu mánaðamót. Þar með var hún orðin næstum tvöfalt hærri en verðbólgumarkmið Seðlabankans en það er 2,5 prósent. Gögn á heimasíðu bankans sýna ótvírætt að verðbólga hefur aukist jafnt og þétt frá því Covid-faraldurinn hófst í endaðan janúar 2020. Þá var hún 1,7 prósent.
Þegar bandaríska hagkerfið hnerrar fær það íslenska kvef. Því er áhugavert að skoða verðbólguþróun þar vestra. Í Bandaríkjunum er hún ískyggileg. Þar hefur verðbólgan aukist úr 0,3 prósentum í apríl 2020 í 4,2 prósent nú í apríl 2021. Í mars á þessu ári var verðbólga í Bandaríkjunum 2,6 prósent. Þetta endurspeglar umtalsverðar verðhækkanir á ýmsum vörum á heimsmarkaði. Þær munu eflaust koma fram hér á landi og verða verðbólguhvati hjá okkur. Horfum við fram á stóraukna dýrtíð og víðtæka heimskreppu vegna Covid?
Við í Flokki fólksins erum ekki ein um að vera órótt vegna þessa. Hinn 5. maí sl. sendu Hagsmunasamtök heimilanna frá sér áskorun til ríkisstjórnarinnar um að hún efni loforð sín um að bregðast við til að vernda heimilin fyrir áhrifum verðbólgu. Þar segir m.a.: „…þó margir hafi flúið verðtrygginguna á undanförnum mánuðum er það alls ekki á allra færi. Það eru einmitt þau sem verst standa sem ekki geta flúið verðtryggða leigu eða húsnæðislán. Það er engan veginn réttlætanlegt að þau greiði hæsta gjaldið vegna ástands sem þau bera enga ábyrgð á. Það er algjörlega óviðunandi að áhrifa þessa ástands á verðtryggð lán heimilanna gæti um ókomna tíð, því þegar verðtryggðu lánin hafa einu sinni hækkað þá lækka þau ekki aftur. Í þessu felst einmitt einn stærsti galli verðtryggingarinnar. Heimilin súpa seyðið um alla framtíð vegna tímabundinnar hækkunar verðbólgu, á meðan lánveitendur hagnast um langa framtíð á þessari sömu tímabundnu hækkun.“
Fjármálaráðherra segist engar áhyggjur hafa af verðbólguskoti. Forsætisráðherra fór undan í flæmingi þegar ég spurði hana um aðgerðir í fyrirspurnartíma á Alþingi í gær. Þau lifa í óskhyggju um að verðbólgan lækki síðar á þessu ári og virðast ráðþrota gegn aðsteðjandi hættu.
Ég spyr: Af hverju hefur ríkisstjórnin ekki gripið til fyrirbyggjandi ráðstafana til að verja heimili landsmanna í tíma þegar hækkun verðtryggðra skuldbindinga vegna verðbólgu af völdum faraldursins skellur á þeim? Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera, nú á síðustu vikum þingsins, til að verja heimilin fyrir verðbólgudraugnum? Mun hún styðja frumvarp Flokks fólksins sem bannar verðtryggingu húsnæðislána og um leið sýna það í verki að hún vinnur ekki einungis að sérhagsmunagæslu fyrirtækja heldur og er tilbúin að verja heimilin í landinu gegn aðsteðjandi vá?
Inga Sæland