Verðbólgudraugurinn ógnar fólkinu

Inga Sæland

Við í Flokki fólks­ins lýs­um yfir þung­um áhyggj­um vegna stig­hækk­andi verðbólgu og þeirra af­leiðinga sem þetta get­ur haft fyr­ir ís­lensk heim­ili. Verðbólg­an hér á landi mæld­ist 4,6 pró­sent nú um síðustu mánaðamót. Þar með var hún orðin næst­um tvö­falt hærri en verðbólgu­mark­mið Seðlabank­ans en það er 2,5 pró­sent. Gögn á heimasíðu bank­ans sýna ótví­rætt að verðbólga hef­ur auk­ist jafnt og þétt frá því Covid-far­ald­ur­inn hófst í endaðan janú­ar 2020. Þá var hún 1,7 pró­sent.

Þegar banda­ríska hag­kerfið hnerr­ar fær það ís­lenska kvef. Því er áhuga­vert að skoða verðbólguþróun þar vestra. Í Banda­ríkj­un­um er hún ískyggi­leg. Þar hef­ur verðbólg­an auk­ist úr 0,3 pró­sent­um í apríl 2020 í 4,2 pró­sent nú í apríl 2021. Í mars á þessu ári var verðbólga í Banda­ríkj­un­um 2,6 pró­sent. Þetta end­ur­spegl­ar um­tals­verðar verðhækk­an­ir á ýms­um vör­um á heims­markaði. Þær munu ef­laust koma fram hér á landi og verða verðbólgu­hvati hjá okk­ur. Horf­um við fram á stór­aukna dýrtíð og víðtæka heimskreppu vegna Covid?

Við í Flokki fólks­ins erum ekki ein um að vera órótt vegna þessa. Hinn 5. maí sl. sendu Hags­muna­sam­tök heim­il­anna frá sér áskor­un til rík­is­stjórn­ar­inn­ar um að hún efni lof­orð sín um að bregðast við til að vernda heim­il­in fyr­ir áhrif­um verðbólgu. Þar seg­ir m.a.: „…þó marg­ir hafi flúið verðtrygg­ing­una á und­an­förn­um mánuðum er það alls ekki á allra færi. Það eru ein­mitt þau sem verst standa sem ekki geta flúið verðtryggða leigu eða hús­næðislán. Það er eng­an veg­inn rétt­læt­an­legt að þau greiði hæsta gjaldið vegna ástands sem þau bera enga ábyrgð á. Það er al­gjör­lega óviðun­andi að áhrifa þessa ástands á verðtryggð lán heim­il­anna gæti um ókomna tíð, því þegar verðtryggðu lán­in hafa einu sinni hækkað þá lækka þau ekki aft­ur. Í þessu felst ein­mitt einn stærsti galli verðtrygg­ing­ar­inn­ar. Heim­il­in súpa seyðið um alla framtíð vegna tíma­bund­inn­ar hækk­un­ar verðbólgu, á meðan lán­veit­end­ur hagn­ast um langa framtíð á þess­ari sömu tíma­bundnu hækk­un.“

Fjár­málaráðherra seg­ist eng­ar áhyggj­ur hafa af verðbólgu­skoti. For­sæt­is­ráðherra fór und­an í flæm­ingi þegar ég spurði hana um aðgerðir í fyr­ir­spurn­ar­tíma á Alþingi í gær. Þau lifa í ósk­hyggju um að verðbólg­an lækki síðar á þessu ári og virðast ráðþrota gegn aðsteðjandi hættu.

Ég spyr: Af hverju hef­ur rík­is­stjórn­in ekki gripið til fyr­ir­byggj­andi ráðstaf­ana til að verja heim­ili lands­manna í tíma þegar hækk­un verðtryggðra skuld­bind­inga vegna verðbólgu af völd­um far­ald­urs­ins skell­ur á þeim? Hvað ætl­ar rík­is­stjórn­in að gera, nú á síðustu vik­um þings­ins, til að verja heim­il­in fyr­ir verðbólgu­draugn­um? Mun hún styðja frum­varp Flokks fólks­ins sem bann­ar verðtrygg­ingu hús­næðislána og um leið sýna það í verki að hún vinn­ur ekki ein­ung­is að sér­hags­muna­gæslu fyr­ir­tækja held­ur og er til­bú­in að verja heim­il­in í land­inu gegn aðsteðjandi vá?

Inga Sæland

Deila