Frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um vísitölu neysluverðs og lögum um fasteignalán til neytenda (afnám verðtryggingar).
Flm.: Inga Sæland, Guðmundur Ingi Kristinsson
Greinargerð
Vegna óstöðugleika íslensku krónunnar og fákeppni á bankamarkaði hafa íslenskir neytendur þurft að fjármagna húsnæðiskaup með töku verðtryggðra lána. Þetta hefur valdið þjóðinni skaða. Þrátt fyrir að standa í skilum við skuldbindingar sínar mega lántakar búast við því að höfuðstóll lána þeirra hækki umtalsvert með litlum fyrirvara. Þetta raungerðist í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 en þá hækkuðu skuldir heimilanna verulega á skömmum tíma með þeim afleiðingum að fjöldi fólks missti heimili sitt.
Vegna heimsfaraldurs kórónuveiru stefnir í einn mesta efnahagssamdrátt í heila öld, hrun í gjaldeyristekjum og metfjölda atvinnulausra. Þrátt fyrir lága vexti og möguleika á endurfjármögnun með töku óverðtryggðra lána geta fjölmargir ekki breytt skuldum sínum með endurfjármögnun vegna atvinnumissis eða annarra ástæðna. Þeir sem skulda verðtryggð lán eru berskjaldaðir gagnvart þessu. Nauðsynlegt er að vernda heimili landsins fyrir hörðustu áhrifum verðbólguskots.
Verðtryggð húsnæðislán taka mið af mánaðarlegum breytingum á vísitölu neysluverðs, sbr. 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu. Lagt er til að þak verði sett á vísitölu neysluverðs sem komi í veg fyrir áhrif verðbólguskots á höfuðstól verðtryggðra lána á næstu 12 mánuðum. Með þessu er hægt að tryggja heimili landsins fyrir óvæntu verðbólguskoti á erfiðum tímum. Þá ætti það ekki að hafa veruleg áhrif á hagsmuni fjármálafyrirtækja þótt þak verði sett á verðtryggð lán enda er það til skamms tíma.
Jafnframt er lagt til að verðtrygging húsnæðislána verði alfarið afnumin. Verðtrygging húsnæðislána getur valdið miklum skaða í þjóðfélagi sem býr við sveiflukenndan gjaldmiðil. Það er því nauðsynlegt að leggja bann við töku verðtryggðra húsnæðislána svo að heimili landsins verði ekki fyrir því að missa allt eigið fé sitt í hverri einustu kreppu. Þar sem ekki er hægt að afnema verðtryggingu af gildandi lánum er nauðsynlegt að tryggja að fólk geti endurfjármagnað verðtryggð lán sín. Einnig er brýnt að niðurstöður lánshæfis- og greiðslumats standi ekki í vegi fyrir því að skuldari geti breytt verðtryggðu húsnæðisláni sínu í óverðtryggt lán. Til að liðka fyrir endurfjármögnun er því lagt til að ekki þurfi að fara fram lánshæfis- og greiðslumat þegar neytandi skiptir út eldra verðtryggðu fasteignaláni fyrir óverðtryggt lán.
Hér er um mikilvægt mál að ræða sem nauðsynlegt er að komi til framkvæmda sem fyrst, áður en áhrifa verðbólgu fer að gæta og þungi þeirra áhrifa bitnar á heimilum landsins.
Um 1. gr.
Í 1. mgr. 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu er að finna lagaheimild fyrir því að verðtryggja lánsfé og sparifé. Með frumvarpinu er lagt til að á eftir 1. mgr. 14. gr. komi ný málsgrein sem kveði á um að neytendalán og fasteignalán megi ekki verðtryggja. Það er ekki markmið þessa ákvæðis að girða fyrir hvers konar verðtryggingu, eftir sem áður verður hægt að verðtryggja sparifé. Þá verður áfram heimilt að verðtryggja þau lán sem ekki heyra undir lög um neytendalán eða lög um fasteignalán.
Um 2. gr.
Lagt er til að ákvæði til bráðabirgða verði sett í lög um vísitölu neysluverðs. Ákvæðið kveður á um að vísitalan muni ekki taka breytingum sem leiði til hækkunar á tímabilinu 1. nóvember 2020 til 31. október 2021. Að tímabilinu loknu verður svo vísitalan reiknuð með hefðbundnu sniði. Þar sem vísitalan er almennt reiknuð og uppfærð á mánaðarfresti verður vísitalan ekki framreiknuð miðað við þær breytingar sem verða á verðlagi þegar þak er á vísitölunni. Að öðrum kosti yrði hætta á því að verðtryggð lán myndu stórhækka strax að tímabilinu loknu og að viðskiptabankar myndu halda að sér höndum í nýjum lánveitingum í þeirri von að fá að tímabilinu loknu fullar verðbætur á lánum hjá þeim sem ekki náðu að endurfjármagna eldri verðtryggð lán með nýjum óverðtryggðum lánum.
Um 3. gr.
Til þess að afnám verðtryggingar skili sér til heimilanna í landinu verða skuldarar að eiga þess kost að endurfjármagna verðtryggð lán sín. Vegna aðstæðna í landinu og efnahagsáhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru hefur fjöldi fólks misst atvinnu sína. Af þeim sökum mun það reynast mörgum erfitt að standast lánshæfis- og greiðslumat við endurfjármögnun lána. Til að liðka fyrir endurfjármögnun verðtryggðra lána er lagt til að ekki þurfi að framkvæma lánshæfis- og greiðslumat vegna fasteignaláns sem miðar að því að endurfjármagna verðtryggt fasteignalán. Algengt er að á fasteignum hvíli fleiri en eitt lán og heimilar ákvæðið einnig endurfjármögnun án lánshæfis- og greiðslumats þegar endurfjármögnun lýtur að fleiri en einu láni svo fremi að eitt þeirra sé verðtryggt. Ákvæðið er sambærilegt undanþágu 1. tölul. 1. mgr. 23. gr. laga um fasteignalán til neytenda, sem heimilar undanþágu frá skyldu til að framkvæma lánshæfis- og greiðslumat, með þeirri undantekningu þó að 1. tölul. gerir kröfu um að reglulegar endurgreiðslur hækki ekki við endurfjármögnun. Þar sem óverðtryggð lán bera almennt hærri greiðslubyrði myndi undanþága 1. tölul. í flestum tilvikum ekki nýtast við endurfjármögnun verðtryggðs láns með töku óverðtryggðs láns. Er af þeim sökum ekki fjallað sérstaklega um fjárhæðir reglulegra endurgreiðslna í ákvæðinu.