Stundum er gagnlegt að rýna í söguna. Sem betur fer höfum við tekið framförum á ýmsum sviðum, ekki hvað síst á þeim sem snúa að mannréttindum og réttindum einstaklinga.
Á síðustu öld risu t.d. upp verkalýðsfélög til að tryggja að atvinnurekendur gætu ekki í krafti yfirburðastöðu sinnar misboðið eða brotið á einstaklingum. Í þessu skyni voru sett lög um atriði eins og vinnutíma, veikindarétt og orlof auk þess sem reglulega er samið um kaup og kjör.
Við getum deilt um hversu vel hafi tekist til því alltaf má gera betur, en því verður ekki á móti mælt að staðan er mun betri en hún var áður en verkalýðsfélög voru stofnuð.
Þannig á það líka að vera. Nú erum við komin vel inn á 21. öldina og réttindi okkar ættu því alltaf að vera betri en þau voru t.d. fyrir miðja síðustu öld og við betur varin fyrir kúgun „hinna ríku og sterku“ en við vorum á þeim tíma.
En svo er því miður ekki á öllum sviðum og það á t.d. við um stöðu neytenda, heimilanna í landinu, gagnvart fjármálastofnunum. Við erum að horfa upp á eitthvert mesta vaxtabrjálæði síðari tíma um þessar mundir þar sem stýrivextir Seðlabankans hafa verið hækkaðir 12 sinnum á skömmum tíma.
Fórnarlömb þessara aðgerða eru heimili landsins, sérstaklega þau sem minnst eiga og mest skulda, eða nákvæmlega þeir hópar þjóðfélagsins sem síst geta staðið undir þessum álögum.
Það er kaldhæðnislegt og eiginlega sorglegt að ekki hefði verið hægt að leggja þessa háu vexti á fasteignalán fyrir miðja síðustu öld, en núna árið 2023 er, þrátt fyrir allan okkar skilning á mannréttindum og friðhelgi heimilisins, enn og aftur verið að fórna þúsundum heimila á altari fjármálafyrirtækjanna.
Fyrir miðja síðustu öld voru vextir yfir 6% skilgreindir sem okur, líka á fasteignalánum.
Vextir á óverðtryggðum fasteignalánum bankanna eru núna frá 9% og upp í 10,64% fyrir viðbótarlán.
Látum það síast aðeins inn.
Hvað breyttist? Af hverju er engin skilgreining á okurvöxtum til í dag? Hversu langt má ganga í vaxtahækkunum áður en hægt er að tala um okurvexti?
Getur ríkið eða stofnanir þess fært til mörk að geðþótta þó þau gangi gegn hagsmunum fólksins sem þessir aðilar eiga að vernda?
Ég vil kalla vaxtahækkanir undanfarinna mánaða glæp gegn fólkinu í landinu. Það getur vel verið að glæpurinn sé framinn í skjóli laga og verði þannig aldrei skilgreindur sem slíkur, en hvað er það, að koma þúsundum heimila á vonarvöl með markvissum hætti, annað en glæpur?
Glæpur sem mætti líkja við landráð. Hvað er þetta annað?