Við getum útrýmt fátækt ef við viljum!

Í lok jan. 2016 birti UNICEF á Íslandi skýrslu um stöðu íslenskra barna. Þar kom fram m.a að ríflega 9,1% barnanna liðu mismikinn skort. Þessi skýrsla varð grundvöllur þess að ég ákvað að stofna Flokk fólksins. Flokk sem hafnaði því með öllu að velmegun og auðlegð íslensks samfélags virkaði einungis fyrir suma en ekki alla.  Hafnar því að 1/10 barnanna okkar byggju við fátækt. Flokkur fólksins segir NEI, hingað en ekki lengra. Þessi neikvæða þróun á kostnað barnanna okkar, er okkur til ævarandi minnkunar.

Fátæktin vex stöðugt og hefur fjöldi þeirra barna sem líða mismikinn skort á Íslandi, rúmlega tvöfaldast á tímabilinu 2009 til 2019.  Við erum að tala um börn þar sem fátækt foreldranna getur ekki tryggt þeim grunndvallar mannréttindi og uppfyllt öryggi þeirra og grunnþarfir, þ.e fæði, klæði og húsnæði.

Flokkur fólksins hefur nú á 150. löggjafarþingi, mælt fyrir velferðarpakka sínum. Velferðarpakki sem birtist í 5 þingmannamálum sem öll byggja á því að bæta hag láglaunafólks og útrýma fátækt. Engin skattahækkun er samfara hugmyndum Flokks fólksins. Einungis lausnir sem auðvelt er að fylgja ef vilji stæði til þess. Við viljum forgangsraða fjármunum þar sem fólkið er sett í fyrsta sæsti. En það er bara enginn vilji, hvorki ríkisstórnarinnar né ákveðinna stjórnarandstöðuflokka. Akkúrat enginn vilji. 

Það er með ólíkindum hvernig lágmarksframfærsluviðmið gefið út af Félags- og barnamálaráðherra hefur nýlega lækkað um tugi þúsunda á mánuði. Það er vert að gefa því gaum að íbúðarkostnaður er ekki einu sinni reiknaður inn í þetta lágmark. Það er einfaldlega ekki gert ráð fyrir því að við séum með þak yfir höfuðið. Staðreyndin er þó sú, eins og allir vita, að íbúðarkostnaður er okkur flestum lang þyngsti pósturinn þegar kemur að mánaðarlegum útgjöldum heimilisins. Var þessi lækkun kannski vegna lækkunar vöruverðs og aukins kaupmáttar? Nei, það eru sannarlega ekki allir sem njóta aukins kaupmáttar velferðarsamfélagsins. Enn og aftur eru það einungis þeir sem eiga nóg af peningum fyrir. Hinir mega halda áfram að hokra í fátækt með börnunum sínum í boði svikinna loforða stjórnmálamanna. Þeirra sem lofa að útrýma fátækt, um leið og þeir segjast hafa skömm á stjórnvöldum sem halda þegnum sínum í slíkum heljargreipum, vanlíðunar, ótta og fátæktar. Þeirra sömu og svíkja gefin loforð kinnroðalaust um leið og þeir kunna ekki að skammast sín.

Eitt er víst að hefðu þeir staðið við gefin loforð, þá væri engin efnahagsfátækt á Íslandi í dag. En staðreyndirnar tala sínu máli. Það var aldrei ætlun þeirra að standa við þau.  

Flokkur fólksins meinar það sem hann segir og segir það sem hann meinar. Við setjum fólkið í fyrsta sæti.

Inga Sæland formaður Flokks fólksins

Deila