Fyrsta kjörtímabili Flokks fólksins á Alþingi lýkur senn. Þetta hefur verið lærdómsríkur og gefandi tími.
Árin hafa liðið hratt og eftir stöndum við bæði, þingmenn flokksins, stolt af þeim verkum sem við höfum unnið.
Síðastliðinn þingvetur (151. löggjafarþing) höfum við Guðmundur Ingi Kristinsson lagt fram 36 þingmannamál. Flest þeirra snúa að því að bæta hag þeirra lægst launuðu, þeirra sem hafa verið skildir út undan. Flokkur fólksins er málsvari gleymda fólksins og allra þeirra sem þöggunin ríkir um.
Við mæltum og fyrir málum varðandi sjávarútveg, dýravelferð, landbúnað og fleira mætti telja.
Þrjú þessara mála fengum við samþykkt af Alþingi. Slíkt er ekki sjálfgefið þegar stjórnarandstöðuflokkur á í hlut. Fyrsta málið sem við fengum samþykkt var afnám skattlagningar og skerðinga á bensínstyrk og styrki til hjálpartækja og lyfjakaupa. Nú fyrir þinglok fegnum við svo samþykkt í lög að ríkið mun hér eftir kosta leiðsöguhunda fyrir blinda og sjónskerta sem þess óska. Þannig mun biðlistum eftir þessu ómetanlega hjálpartæki sem leiðusöguhundur er verða útrýmt. Annað mál sem við höfum barist fyrir allt kjörtímabilið og fengum loks samþykkt er hagsmunafulltrúi fyrir eldra fólk sem á að tryggja og vernda velferð þeirra og hagsmuni.
Við lögðum fram 259 fyrirspurnir á kjörtímabilinu fyrir ráðherra ríkisstjórnarinnar, bæði til munnlegra og skriflegra svara. Fyrirspurnir eru mjög mikilvægt tæki þingmanna til að veita framkvæmdavaldinu aðhald og kalla eftir upplýsingum sem skipta miklu máli í þjóðfélaginu. Fyrirspurnir Flokks fólksins hafa snúið að ótal atriðum varðandi velferðarkerfið, samgöngur, sjávarútvegsmál og fleira. Einnig stóðum við fyrir því að gerð var ítarleg skýrsla til Alþingis um nýtingu loðnustofnins. Öll okkar vinna við þingmál og fyrirspurnir nýtist við frekari stefnumótun og málatilbúnað.
Um okkur verður ekki sagt að við höfum ekki nýtt æðsta ræðustól landsins til að hrópa á aukið réttlæti, til að berjast af öllu afli gegn fátækt og spillingu.
Þrátt fyrir óbilandi dugnað okkar og ástríðu sem við höfum lagt í baráttuna, reyna pólitískir andstæðingar Flokks fólksins að halda því fram að ekkert liggi eftir okkur á þingi. Slíkur málflutningur dæmir sig sjálfur og segir meira um þann sem heldur slíku fram en nokkrum er hollt að vita. Við þolum samanburð við hvaða þingflokk sem er. Stolt leggjum við verk okkar í dóm kjósenda og trúum því að við uppskerum eins og við höfum sáð. Við trúum því að réttlætið muni sigra.
Inga Sæland