Það að lifa við örbirgð og geta ekki mætt grunnþörfum sínum er ein af skilgreiningum fátæktar. Menntunarskortur, næringarskortur vegna lélegs matar og þá heilsubrestur vegna skorts á heilbrigðisþjónustu og að hafa ekki efni á klæðum og mannsæmandi húsnæði er birtingarmynd sárafátæktar.
Samfélagslegur kostnaður vegna fátæktar er mikill, einkum í formi heilsubrests vegna þess að fátækt fólk hefur ekki efni á heilbrigðisþjónustu fyrir sig og börnin sín.
Þá veldur viðverandi fátækt vanlíðan með tilheyrandi kvíða og langvarandi veikindum og þar standa öryrkjar sem eru einstæðar mæður langverst í okkar ríka samfélagi.
Könnun á ævilíkum fólks sem býr við viðverandi fátækt var gerð í Bretlandi 2001-2016 og þar kom fram að dauðsföll vegna fátæktar eru mörg og þá sérstaklega meðal kvenna. Munurinn á milli kvenna sem lifa í fátækt í Bretlandi og þeirra sem lifa við velmegun er að nálgast tíu ár og bilið eykst. Konur sem lifa við fátækt lifa að meðaltali nær tíu árum skemur en þær sem eru efnameiri. Þá deyja þær oft úr sjúkdómum sem auðveldlega mætti meðhöndla ef þær hefðu efni á heilbrigðisþjónustu og þá að fá þjónustu læknis.
Þetta er ekkert öðruvísi hér á Íslandi og hér er einnig heilsutjón vegna fæðuskorts, lélegs fæðis. Þá er hér einnig heilsutjón vegna andlegra og líkamlegra óþæginda vegna geðheilbrigðismála sem ekki eru meðhöndluð vegna biðlista og að fátækt fólk hefur ekki efni á heilbrigðisþjónustu.
Þá hefur borið á því, því miður, að veikindi kvenna eru meðhöndluð sem þær séu á breytingaskeiði eða bara móðursjúkar og fá því ekki þá þjónustu sem þær eiga fullan rétt á.
Þetta má einnig yfirfæra yfir á þær konur sem eru í láglaunastörfum og slíta sér þar út og enda svo sem öryrkjar vegna heilsubrests og í áframhaldandi fátækt og lifa þá nærri tug ára skemur en þær efnameiri!
Fátækt fólk er sá hópur sem hefur ekkert svigrúm til að mæta stórhækkuðu vöruverði og öðrum óvæntum kostnaði sem fylgir miklum verðhækkunum vegna verðbólgu og hvað er ríkisstjórnin að gera í fjárlögum fyrir þá verst settu í almannatryggingakerfinu? Hækka bara lífeyrislaun um 4,9% á sama tíma og þeir hækka einkarekna fjölmiðla um 10,6% og skýra það út með því að hún taki tillit til áhrifa af almennum launa- og verðlagsbreytingum, sem greinilega á ekki við um þá verst settu. Þarna munar 5,7%, sem er meira en helmingi meiri hækkun fyrir fjölmiðla en þá verst settu.
Þetta er þeirra réttlæti, sem er ekkert annað en gífurlegt óréttlæti. Á sama tíma og Ríkisútvarpið fær einnig allar almennar launa- og verðlagsbreytingar að fullu bættar – og það á sama tíma og fátækt fólk með börn á framfæri á ekki fyrir mat, lyfjum og lífsnauðsynlegri heilbrigðisþjónustu – verður að borga útvarpsgjald!