Viljum skýrslu um Lindarhvol!

Þingmenn úr Flokki fólksins, Pírata, og Samfylkingunni kalla eftir því að Ríkisendurskoðun vinni úttekt á starfsemi Lindarhvols. Athygli vekur að Ríkisendurskoðun er á lokametrunum við að vinna skýrslu um Lindarhvol, sem hefur verið í vinnslu í vel á annað ár, fyrst af settum ríkisendurskoðenda Sigurði Þórðarsyni en sumarið 2018 tók Ríkisendurskoðun við verkinu. Skúli Eggert Þórðarson ríkisendurskoðandi vonaðist til að skýrslan kæmi út í nóvember, síðast þegar Viðskiptablaðið ræddi við hann. Hafði útgáfa skýrslunnar þá frestast nokkrum sinnum og var hún sögð í yfirlestri.

Í skýrslubeiðni þingmanna er óskað eftir því að dregið verði fram hvort starfsemi félagsins hafi skilað tilætluðum árangri og hvaða verkferlum stjórn og starfsmenn félagsins fylgdu í störfum sínum. Einnig verði athugað á hvaða grundvelli félagið keypti ráðgjöf og hvort sú ráðgjöf og þjónusta hafi skilað tilætluðum árangri. Þingmennirnir benda á að eignirnar sem félaginu var falið að koma í verð hafi í upphafi verið metnar á um 60 milljarða króna. 

„Það skiptir miklu máli að vanda til verka við meðferð og sölu ríkiseigna. Félagið keypti einnig þjónustu af einkaaðilum fyrir háar fjárhæðir í tengslum við verkefni sín. Það er mikilvægt að almenningur geti treyst því að ríkið verji fjármunum sínum á skynsamlegan hátt og að samningar við einkaaðila séu gerðir á málefnalegum grundvelli,“ segir í greinargerð þingmannanna.

„Almenningur á rétt á því að vita hvort opinberra hagsmuna hafi verið gætt í starfsemi Lindarhvols,“ segir enn fremur í greinargerðinni.

Beiðnin um skýrsluskrifin kemur frá Ingu Sæland, Guðmundi Inga Kristinssyni, Birni Leví Gunnarssyni, Helgu Völu Helgadóttur, Helga Hrafni Gunnarssyni, Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, Loga Einarssyni, Oddnýju G. Harðardóttur og Guðjóni S. Brjánssyni.

Söluferli á Klakka gagnrýnt

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra setti Lindarhvol á fót í apríl 2016, um að selja eignir sem ríkið eignaðist með stöðugleikaframlögum föllnu bankanna árið 2015. Starfsemi Lindarhvols var hætt í febrúar 2018 þegar óseldar eignir voru afhentar Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins upp í skuld ríkisins við lífeyrissjóðinn. Ríkið greiddi lögmannsstofunni Íslög 100 milljónir króna að meðtöldum virðisaukaskatti fyrir að sjá um rekstur Lindarhvols á þeim tæplega tveimur árum sem starfsemi var í félaginu.

Söluferli Lindarhvols á hlut Klakka árið 2016 hefur verið harðlega gagnrýnt. Forsvarsmenn félagsins Frigus II, sem er í eigu bræðranna Lýðs og Ágústs Guðmundssona, kennda við Bakkavör, segja að hæsta boði hafi ekki verið tekið að teknu tilliti til núvirðingar. Þá hafi engar upplýsingar verið gefin um Klakka í söluferlinu og árshlutauppgjör hafi ekki verið birt þó það hafi átt að liggja fyrir. Ríkið hafi orðið af um hálfum milljarði króna við söluna miðað við það verð sem TM hyggst greiða fyrir Lykil, stærstu eign Klakka.

Deila