Virkjum visku, reynslu og kraft hinna eldri!

Okkar fjölþætta og ört vaxandi samfélag skortir starfskrafta. Brugðist er við þeirri vöntun með stórfelldum innflutningi starfsfólks frá fjölmörgum þjóðríkjum. Á meðan skiptir það fólk hundruðum á ári hverju sem gert er að hætta störfum fyrir aldurs sakir, þó að það sé fullhraust og meira en viljugt til áframhaldandi starfa. Vinnan göfgar jú og viðheldur snerpu, gleði og sjálfsvirðingu.
 
 Óréttlætanleg sóun

Sífellt fleiri landsmenn líta á hækkandi aldur sem takmark til að ná árangri í lífinu í stað þess að efri árin þurfi endilega að vera takmarkandi þáttur lífsgæða. Þannig taka sífellt fleiri ábyrgð á heilsu sinni fram eftir öllum aldri með líkams- og hugarrækt ásamt hollum neysluvenjum

 
Lífslíkur Íslendinga hafa þróast í jákvæða átt og flest bendir til þess að þessi þróun haldi áfram. Þetta þýðir tvennt:

1.      möguleika á fleiri verðmætaskapandi árum á mannsævinni

2.      sífellt færri verða að fjármagna ellilífeyri sífellt fleiri vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar

Höfum hugfast að með hverjum árgangi hefur íslenskt samfélag að jafnaði fjárfest vaxandi upphæð til menntunar. Það þýðir að fyrir hvern árgang fullfrísks fólks, sem gert er óvirkt með því að hætta störfum, glatast enn meiri félagslegur auður!

Þverpólítískur samhljómur

Hæstvirtur menningar- og viðskiptaráðherra sagði réttilega í nýlegum þætti Dagmála á sjónvarpsrás Morgunblaðisns: „Hér þarf að ryðja úr vegi hindrunum til að auka hagvöxt og lífsgæði. Ég er á því að við þurfum líklega að hækka eftirlaunaaldurinn en hafa það valfrjálst, þannig að við séum með fleiri við störf og lengur.”

Ráðherra vísaði til þess að aðrar þjóðir hafi hækkað eftirlaunaaldur og bendir réttilega á að Íslendingar hafi ánægju af því að vinna.

Þingmaður VG, Bjarkey Olsen formaður fjárlaganefndar, lagði fram á síðasta löggjafarþingi tillögu til þingsályktunar um afnám 70 ára aldurstakmörkunar í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og var tillagan studd af þingmönnum úr mörgum flokkum.

Á yfirstandandi þingi hafa þingmennirnir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bergþór Ólason lagt fram, og það í sjötta sinn, tillögu um breytingu á gildandi lögum sem felur í sér hækkun starfslokaaldurs ríkisstarfsmanna. Þar er m.a.vísað til þess hve mikill auður liggi í þekkingu og reynslu fólks sem t.a.m. hefur unnið sem sérfræðingar eða embættismenn um langa hríð.

Stígum skrefið til fulls!

Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt fram frumvarp um afnám skerðinga ellilífeyris vegna atvinnutekna, en óumdeilt er að áframhaldandi vinna eftir að ellilífeyrisaldri er náð eykur möguleika aldraðra til að bæta kjör sín, einkum þeirra sem lægstar hafa tekjurnar, auk þess að vera þjóðhagslega hagkvæm. Fyrsta skrefið í rétta átt hefur þegar verið stigið, með tvöföldun frítekjumarksins. Næsta skref þarf að stíga til fulls!

Við blasir óvenju mikill samhljómur þvert á ólíka flokka, bæði meiri- og minnihluta. Drífum í því að samræma sameiginleg sjónarmið í löngu tímabæru frumvarpi sem stutt yrði miklum meirihluta skynsamra og framsýnna þingmanna!

Deila