Vonbrigði fyrir þá verst settu

Nú stendur yfir endurskoðun á lögum um örorkulífeyri almannatrygginga. Miðar hún að því að bæta núverandi kerfi sem er hrein martröð fyrir þá sem þurfa á því að halda. Því miður þekki ég það vel sjálfur, eftir 26 ára reynslu af kerfinu.

Þrátt fyrir yfirlýsingar stjónvalda um betra örorkulífeyriskerfi, má enn finna í þessu nýju kerfi ótal alvarlegar brotalamir. Eitt af því sem vekur hvað mesta furðu er endurvakning ýmissa gamalla drauga. Sá versti er krónu á móti krónu skerðing sem nú á að taka upp á ný í enn verri mynd en áður. Samkvæmt nýju kerfi, ef einstaklingur fær 50.000 kr. fyrir hlutastarf, þá missir hann allan virknistyrkinn upp á 95.000 kr. Það er óskiljanlegt að stjórnvöld vilji innleiða svo ósanngjarnt og letjandi fyrirkomulag, þar sem virknistyrkurinn mun hverfa við hverja einustu krónu sem einstaklingur aflar.

Annað atriði sem vekur undrun er lækkun heimilisuppbótar og aldurstengdrar uppbótar fyrir þá allra verst settu í þessu kerfi, sem eru öryrkjar og eldri borgarar sem búa einir. Kjarabætur fyrir þessa einstaklinga í nýja kerfinu eru hverfandi, þrátt fyrir að þeir standi einna verst og þurfa að standa straum af húsnæðiskostnaði án aðstoðar.

Ljóst er að frumvarpið í núverandi mynd þarfnast ítarlegra endurbóta og dugar skammt til að uppræta sárafátækt meðal örorkulífeyrisþega. Flokkur fólksins vill ganga mun lengra til að tryggja mannsæmandi lífskjör fyrir þá verst settu í samfélaginu, svo sem skattleysi launatekna undir 400.000 krónum. Fullan örorku- og ellilífeyrir sem tryggir lífeyrisþegum 400.000 kr. á mánuði, skatta- og skerðingarlaust. 100.000 krónu frítekjumark á allar tekjur og 250.000 króna frítekjumark á atvinnutekjur. Með þessu væri stigið raunverulegt framfaraskref í átt að því að uppræta sárafátækt meðal öryrkja og eldra fólks.

Höfundur er þingflokksformaður Flokks fólksins. 

Deila