Það virðist vera reglan frekar en undantekning hjá ríkisstjórninni að styrkir og frítekjumörk haldist óbreytt árum eða jafnvel í áratug án þess að hækka samkvæmt vísitölu launa. Með þessum vinnubrögðum er ríkisstjórnin vísvitandi og viljandi að skerða stórlega tekjur og styrki.
Þetta er mjög áberandi í almannatryggingakerfinu og þar ætti 200.000 kr. frítekjumark á mánuði vegna vinnulauna að vera nærri helmingi hærra ef rétt væri og þá fyrir alla, en ekki bara suma. Þá ætti 25.000 kr. almennt frítekjumark lífeyrislauna að vera nærri 50.000 kr. á mánuði ef það væri rétt uppfært.
Hækkum fjárlög um bara 138 milljónir kr. og greiðum verst setta aldraða fólkinu okkar 66.381 kr. skatta- og skerðingarlausa eingreiðslu í desember eins og öryrkjar fá. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins er um 2.080 einstaklinga að ræða. Í þeim hópi eru 1.032 öryrkjar sem fá nú ellilífeyri í stað örorkulífeyris.
Full eingreiðsla orlofs- og desemberuppbótar til ellilífeyrisþega er 117.526 kr. 40% eru greidd sem orlofsuppbót en 60% greidd 1. desember sem desemberuppbót. Eingreiðslan, sem er um 77.000 kr. eftir skatt, skerðist síðan samkvæmt 20. gr. laga um almannatryggingar uns hún fellur alveg niður, sem er fáránlegt.
Ekki eina einustu krónu fyrir suma og lítið sem ekkert fyrir aðra. Það á að vera sjálfsagt að orlofs- og desemberuppbót skili sér óskert til allra sem eru á lífeyrislaunum almannatrygginga, eins og hún kemur óskert eftir skatt í vasa okkar alþingismanna og vinnandi fólks.
Nema þeir sem eru á lífeyrislaunum almannatrygginga séu annars flokks borgarar í augum ríkisstjórnarinnar og eigi því ekki þessar jóla- og orlofskrónur skilið?
Þá verður að sjá til þess að 2.080 allra verst settu eldri borgararnir fái 66.000 kr. eingreiðslu skatta- og skerðingarlaust núna í jólabónus, en af þeim eru 1.032 öryrkjar sem eru að fara á ellilífeyri og missa því aldurstengdu uppbótina.
Þá er það óverjandi með öllu að verst settu öryrkjarnir séu með fjárhagslegan hnút í maganum þegar þeir hætta að vera öryrkjar og fara yfir í ellilífeyriskerfið og verða – hvað? Heilbrigðir eldri borgarar í boði ríkisins?
Hvað skeður við það? Þeir missa um 28.000 kr. á mánuði eða 336.000 kr. á ári sem er á allan hátt mjög óeðlilegt fjárhagslegt ofbeldi og það af verstu gerð. Fötluðu fólki, sem er búið að vera á launum langt undir fátæktarmörkum alla sína ævi, er refsað fjárhagslega fyrir það eitt að verða 67 ára og fara á ellilífeyri.
Það ætti að hækka það um 28.000 kr. á mánuði en ekki ræna það þeirri upphæð til þess að gera líf þess enn ömurlegra síðustu æviárin. Skammist ykkar, þið ríkisstjórnarliðar sem berið fulla ábyrgð á öllu þessu óréttlæti, það er að segja ef þið kunnið það þá.