Hingað og ekki lengra

Ógnvænleg þróun á vaxandi glæpatíðni í landinu hefur ekki farið fram hjá neinum. Líkja má ástandinu við hreina og klára vargöld. Glæpagengi fá nægan tíma og svigrúm til að skjóta hér rótum án þess að nokkuð sé að gert til að uppræta þau. Aldrei áður höfum við heyrt um annað eins af skipulagðri glæpastarfsemi, morðum, mansali, ránum og óhugnanlegum ofbeldisglæpum þar sem fórnarlömbin þora ekki að stíga fram og kæra níðingana af ótta við enn frekara ofbeldi.

Það liggur fyrir að samfélagið okkar hefur tekið stökkbreytingum á ljóshraða. Fjölmenningarsamfélagið Ísland hefur misst tökin og sú örugga saklausa þjóð sem við áður þekktum hefur runnið sitt skeið. Enginn gengur lengur öruggur um miðbæinn síðdegis, hvað þá um helgar.

Fyrir skömmu átti ég samtal við Björn Levi Gunnarsson pírata og Sönnu Magdalenu Mörtudóttur sósíalista á Samstöðinni þar sem ég talaði um þá ógnarþróun sem ætti sér stað í samfélaginu, með vaxandi ofbeldi og stóraukinni glæpatíðni. Það er skemmst frá því að segja að hvorugt þeirra var mér sammála. Þau komu ekki auga á neina slíka ógn. Ég var að mikla hlutina fyrir mér. Ég var að kalla á lögregluríki. Ég þarf ekki að minna neinn á hvaða hörmungar hafa dunið yfir samfélagið síðan þá.

Íslendingar eru ekki lengur sú litla, saklausa þjóð sem við áður vorum. Íbúum landsins fjölgar hratt á meðan lögreglan er skilin eftir allt of fámenn og fjársvelt. Það er algjör ómöguleiki fyrir hana að stíga inn í ástandið og reyna að uppræta þessi skipulögðu glæpagengi. Stjórnvöld sjá ekki sóma sinn í að manna lögregluna og efla í takt við þá ógnarþróun sem nú er að skjóta hér rótum.

Glæpaaldan sem flæðir yfir samfélagið hefur fengið að vaxa svo til óáreitt. Stjórnvöld vita vel af ástandinu. Hafa sett einn og einn plástur á sárin en að ráðast í raunverulegar aðgerðir til að uppræta vandann hefur ekki verið þeim að skapi. Í umboði þeirra fær hin skipulagða glæpastarfsemi að festa sig enn frekar í sessi.

Flokkur fólksins mun ekki hika við að ráðast að rótum vandans fáum við umboð til þess. Afstaða okkar er skýr. Við munum aldrei horfa upp á fallega landið okkar verða fórnarlamb vargaldar ofbeldis og glæpa. Við munum þjálfa og efla lögregluna í takt við ógnina sem við þurfum að uppræta. Með Flokki fólksins finnum við ræturnar okkar á ný.

Flokkur fólksins þorir! 

Deila