Að sigla undir fölsku flaggi

Fyrir kosningar árið 2013 sendi formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, bréf til allra eldri borgara. „Eldri kynslóðir verðskulda að búa við öryggi og góð lífsgæði,“ skrifaði hann. „Fái Sjálfstæðisflokkurinn umboð til að leiða næstu ríkisstjórn munum við setja eftirfarandi mál í öndvegi.“ Svo lofaði formaðurinn meðal annars að íþyngja ekki öldruðum með ósanngjarnri skattlagningu, að afturkalla kjaraskerðingar hjá ellilífeyrisþegum, afnám tekjutengingar ellilífeyris og svo framvegis. Sjálfstæðisflokkurinn fékk sitt umboð, en stóð hann við gefin loforð? Að sjálfsögðu ekki.

Flokkur fólksins hefur lagt fram fjölda þingmála sem snerta hagsmuni aldraðra. Þar á meðal eru þingmál um afnám skerðinga vegna launatekna, 100.000 króna frítekjumark vegna lífeyristekna og að komið verði í veg fyrir vaxandi kjaragliðnun með því að láta bætur almannatrygginga hækka í samræmi við launavísitölu í stað þess að miða við vísitölu neysluverðs. Þessum málum hefur margoft verið hafnað á Alþingi.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur barist með kjafti og klóm gegn þeim málum sem hann hefur sjálfur lofað að framkvæma. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Sjálfstæðisflokkurinn siglir undir fölsku flaggi. Þingmenn flokksins hafa lengi talað um mikilvægi þess að draga úr ríkisafskiptum og fækka þeim sem eru á spena ríkisins. En þegar nánar er skoðað kemur allt annað á daginn. Síðustu ár hefur ríkið, undir forystu Sjálfstæðisflokksins, greitt um fimm milljarða króna til stjórnmálaflokka. Þótti flestum það nóg, en þegar núverandi ríkisstjórn kom til valda tók hún þá ákvörðun að hækka styrki til stjórnmálaflokka um 127 prósent.

Allir þingflokkar alþingis, fyrir utan Pírata og Flokk fólksins, samþykktu að skammta sér þessa peninga. Enda eru flestir stjórnmálaflokkar skuldum vafnir. Þetta kemur á ofan á þær óhóflegu launahækkanir sem þingmenn hafa fengið undanfarin ár. Á meðan bíða aldraðir enn eftir því sem þeim var lofað fyrir löngu.

Deila