Afnám skerðinga á atvinnutekjur aldraðra

Það er hagkvæmt fyrir íslenskt samfélag ef sem flestir vinna og rannsóknir hafa sýnt fram á að vinna og virkni á efri árum stuðlar að betri heilsu, dregur úr einangrun og hefur almennt mikið félagslegt gildi fyrir eldri borgara. Íslensk lög virðast þó hafa það að markmiði að koma í veg fyrir atvinnuþátttöku eldri borgara. Atvinnutekjur þeirra eru skertar með svo ofsafengnum hætti að fjárhagslegur ábati verður nánast enginn. Það er því með öllu óverjandi að öldruðum sé refsað fyrir atvinnuþátttöku í formi slíkra skerðinga.

Árið 2017 birti FEB (Félag eldri borgara) greinargerð um fjárhagslega stöðu aldraðra. Þar kom fram að afnám skerðinga á lífeyrisgreiðslur vegna atvinnutekna þurfi ekki að fela í sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð og það er vel hugsanlegt að ríkissjóður gæti haft fjárhagslegan ávinning af aðgerðinni. Þrátt fyrir það hefur núverandi ríkisstjórn haldið því fram að afnám þessara skerðinga geti kostað ríkissjóð nokkra milljarða króna. Ef við gefum okkur að það sé rétt þá getum við samt sem áður leyft öldruðum að vinna án skerðinga með því að breyta forgangsröðinni á því hvernig við eyðum opinberum fjármunum.

Þegar farið er yfir fjárlög núverandi ríkisstjórnar rekur maður augun í alls konar furðuleg forgangsmál; 160 milljónir fara í styrki til minkaeldis, 400 mill­j­ónum hefur verið veitt í rekstrarstuðning til fjölmiðla sem flestir eru í eigu ríkra auðmanna og RÚV kostar okkur fimm milljarða á hverju ári, auk þess að fá u.þ.b. tvo milljarða í auglýsingatekjur sem annars myndu dreifast á aðra fjölmiðla. Síðustu ár hefur ríkið greitt um fimm milljarða króna styrk til stjórnmálaflokka. Þótti flestum það nóg, en þegar núverandi ríkisstjórn kom til valda tók hún þá ákvörðun að hækka styrki úr ríkissjóði til stjórnmálaflokka um 127 prósent.

Með réttum forgangi er hægt að afnema skerðingar á atvinnutekjur aldraðra núna strax. Eina sem vantar er vilji stjórnvalda.

Deila