Áfram veginn til réttlætis

Mörg­um kom á óvart þegar Flokk­ur fólks­ins náði frá­bærum ár­angri í nýafstöðnum kosn­ingum. Mun betri ár­angri en kann­an­ir höfðu gefið til kynna, sem skilaði sér í kjördæmakjörnum þingmanni í öllum kjördæmum.

Flokk­ur fólks­ins og Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn eru óum­deild­ir sig­ur­veg­ar­ar kosn­ing­anna. Þess­ir flokk­ar eiga það sam­eig­in­legt að hafa lagt mikla áherslu á mál­efni ör­yrkja, eldra fólks, barna og fá­tækra. Niður­stöður kosn­ing­anna eru skýrt ákall frá kjós­end­um til lög­gjaf­ans um að styrkja verði stöðu þess­ara hópa. Það er ekki hægt að bíða leng­ur eft­ir rétt­læt­inu.

Við verðum að fjármagna heilbrigðiskerfið og manna spítala. Við þurfum að útrýma biðlistunum sem gera það að verkum að veikt fólk og börn þurfa að bíða heilu misserin eftir læknis- og sérfræðihjálp. Það er engan veginn ásættanlegt að fólk þjáist að óþörfu í einu ríkasta landi heims. Þjáning og skerðing lífsgæða verður aldrei metin til fjár, en það myndi fljótt borga sig fyrir ríkið að taka á þessum vanda.

Við verðum að hækka framfærslu almannatrygginga svo að fólk nái endum saman. Við megum ekki láta fólkið okkar bíða fjögur ár í viðbót. Með samvinnu og fyrirhyggju getum við lagað allt þetta og miklu meira til.

Flokkur fólksins er reiðubúinn að takast á við það göfuga verkefni að tryggja öllum réttlæti í okkar ríka landi. Við viljum leggja okkar af mörkum til að auka og efla virðingu almennings á Alþingi Íslendinga. Með því að vinna af heilindum að almannahag munum við senda sólargeisla inn í líf margra bræðra okkar og systra, sem hafa ekki séð til sólar svo árum skiptir.

Fátækt er mannanna verk. Það er í okkar höndum að útrýma henni.

Fólkið fyrst, svo allt hitt!

Höfundur er alþingismaður og formaður Flokks fólksins.

Deila