Biðlisti til að komast á biðlista til að komast á biðlista

„Biðlistar eftir heilsumati til að komast á biðlista eftir hjúkrunarrými er fáránlegt fyrirkomulag. Það er verið að plata þá sem bíða eftir þessari þjónustu sem þeir þurfa á að halda. Það er alveg með ólíkindum að við skulum nú þegar vera með tvískipt kerfi biðlista, biðlista fyrir eldri borgara eftir að komast í færnismat og biðlista til þess að komast á biðlista sem kemur þér inn á hjúkrunarheimili. Það er sorglegt til þess að hugsa að kerfið skuli vera farið að virka í þessa átt. Ég spyr mig: Hvað verður næst í þessu kerfi? Verður það biðlisti til að komast í færniskerfið, síðan biðlisti til að vera í bið í færniskerfinu og síðan biðlisti til að þess að komast inn á hjúkrunarrými? Þrískipt kerfi; biðlisti til að komast á biðlista til að komast á biðlista. Ef það er lausn þessarar ríkisstjórnar þá segi ég: Guð hjálpi okkur“ sagði Guðmundur Ingi alþingismaður Flokks fólksins, þegar hann mælti fyrir tillögu sinni um búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum.

Nokkrar staðreyndir úr ræðu þingmannsins:

„Fjöldi þeirra sem bíða eftir hjúkrunarrýmum jókst um sextíu prósent á landsvísu á milli janúar 2014 og janúar 2018. Á sama tíma fjölgaði þeim sem bíða þurftu lengur en níutíu daga eftir hjúkrunarrými um 35 prósent. Frá árinu 2014 til ársins 2018 lengdist meðalbiðtími eftir hjúkrunarrými úr 91 degi í 116 daga. Af þeim 186 einstaklingum sem fengu úthlutað hjúkrunarrými á þriðja ársfjórðungi ársins 2014 biðu 57 einstaklingar lengur en 90 daga. Á þriðja ársfjórðungi ársins 2018 biðu 77 einstaklingar af 175 lengur en 90 daga eftir því að fá hjúkrunarrými.“

Deila