Börn með geðræn vandamál bíða

Guð­mundur Ingi Kristins­son, þing­maður Flokks fólksins, var harð­orður í dag á þingi þegar hann fjallaði um bið­lista eftir úr­ræðum fyrir börn með geð­heil­brigðis­vanda á dag á þingi.

Hann kallaði eftir svörum frá heil­brigðis­ráð­herra um hvernig eigi að skera niður bið­lista og tryggja börnum rétta þjónustu.

Svan­dís Svavars­dóttir, heil­brigðis­ráð­herra, sagði á þingi í dag að það væri ein af hennar megin­á­herslum sem ráð­herra að stuðla að jafnri geð­heil­brigðis­þjónustu um allt land og að efla Þróunar­mið­stöð heilsu­gæslunnar.

Máls­hefjandi var Guð­mundur Ingi og kom fram í máli hans kom fram að alls eru 1.193 börn á bið­lista um allt land eftir annað hvort greiningu eða með­ferð við geð­rænum vanda. Flest þeirra bíða greiningar á Þroska- og hegðunar­stöð, eða 584. Alls bíða 107 börn eftir greiningu á Barna- og ung­linga­geð­deild Land­spítalans (BUGL), og níu eftir inn­lögn á deildina.

„Við erum að láta börn með geð­ræn vanda­mál bíða, ekki bara mánuðum saman heldur jafn­vel árum saman,“ sagði Guð­mundur Ingi.

Stærstur hluti innlagna bráðainnlagnir

Hann gagn­rýndi langa bið­lista og þann litla stuðning sem er í boði fyrir börn sem alast upp hjá for­eldrum með geð­rænan vanda, eða fíkni-, á­fengis-, eða fjár­hags­vanda.

„Álag á börn og fjöldi þeirra er oft og tíðum svo al­var­legt að skaðinn verður ó­bætan­legur, bæði and­lega og líkam­lega og fjár­hags­lega og með því að út­rýma bið­listum barna og ung­linga er ríkið að fram­leiða ör­yrkja á færi­bandi núna og í náinni fram­tíð,“ sagði Guð­mundur.

Hann sagði að í svari ráð­herra til hans frá því í septem­ber hafi komið fram að stærstur hluti inn­lagna á BUGL væri bráða­inn­lagnir og spurði hvaða úr­ræði væru í boði fyrir þá for­eldra og börn sem bíða þess að komast í úr­ræði á deildinni, oft í marga mánuði.

Tölur um bíðtíma gefi ekki góða mynd

Heil­brigðis­ráð­herra svaraði Guð­mundi og benti á að geð­heil­brigðis­vandi barna sé mis­munandi og að ó­líkar stéttir sjái um að veita þeim þjónustu. Hún sagði tölur um bið­tíma gefi ekki heildar­mynd af bið­tíma barna, sum fari beint í for­gang og önnur bíði lengur. Það fari eftir eðli mála. Hún sagði mikil­vægt að halda því til haga að flest barnanna sem eru á bið­lista eftir sér­hæfðri greiningu séu þegar komin í ein­hvers konar úr­ræði á vegum skóla, heilsu­gæslu eða sjálf­stætt starfandi aðila og fá þannig að­stoð á meðan þau bíða.

Hún sagði þó æski­legt að bið eftir greiningu yrði stytt og að í ráðu­neytinu væri nú unnið að því að finna leiðir til þess og þá sér­stak­lega hvernig megi stytta bið eftir ADHD-greiningu og með­ferð.

Þá sagði hún að þegar mikið álag væri á bráða­þjónustu BUGL þá lengist bið­tími þeirra sem eru á al­mennum bið­lista. Bið­tími sé allt frá einni viku til nokkurra mánaða en að öll þau börn sem eru á bið­lista eftir inn­lögn séu í virkri þjónustu göngu­deildarinnar. Þá sé BUGL einnig virkur þátt­takandi í sam­ráð­steymum heilsu­gæslunnar þar sem börnin hafa að­gang að marg­þættri þjónustu í nær­um­hverfi. Það séu alls ní­tján virk sam­ráð­steymi, flest á höfuð­borgar­svæði, en að einnig séu nokkur á lands­byggðinni.

Svan­dís sagði að það væri unnið að því í ráðu­neyti hennar í sam­vinnu við ADHD-sam­tökin, Land­spítalann og heilsu­gæslu höfuð­borgar­svæðisins að skoða nýtt og skil­virkara fyrir­komu­lag sér­stak­lega og greiningum og með­ferð við ADHD. Hún sagði ekkert því til fyrir­stöðu, nái það til­ætluðum árangri, að nota það einnig við til­vísanir í aðrar greiningar og með­ferð á öðrum geð­röskunum barna.

Svan­dís sagði að lokum að hún væri al­ger­lega sam­mála Guð­mundi að það beri að for­gangs­raða í þágu geð­heilsu og í þágu barna.

Geðheilbrigðiskerfið þurfi að vera undirbúið eftir COVID-19

Tals­verð um­ræða fór síðan fram um málið og var meðal annars fjallað um þann mikla vanda sem gæti til dæmis safnast hjá fólki í CO­VID-19 og að geð­heil­brigðis­kerfið verði að vera undir­búið fyrir þann mikla fjölda sem gæti þurft að leita þangað að loknum heims­far­aldri, en undan­farnar vikur hefur verið tíð­rætt um þann lang­tíma­vanda sem geti fylgt svo­kallaðri far­sóttar­þreytu.

Svan­dís sagði í loka­orðum sínum í um­ræðunni að það hefði alltaf verið stefna hennar að efla sál­fræði­þjónustu um landið allt. Hún sagði sam­mála því að það væri mikil­vægt að tryggja snemmtæka í­hlutun og að það verði að tryggja að það sé ekki ó­hóf­leg bið á þriðja stigi þjónustunnar. Hún sagði frá því að það væru 540 milljónir í fjár­laga­frum­varpi til að tryggja að­gengi fólks óháð bú­setu.

Hún tók undir þær um­ræður sem komu fram hjá öðrum þing­mönnum um að kerfin tali öll betur saman og að það þurfi að fara í út­tekt á geð­heil­brigðis­þjónustu á Ís­landi.

Hægt er að horfa á um­ræðuna á vef al­þingis.

Deila