Eftirfarandi frétt birtist á Mbl.is 20.03.2018
“Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Flokks fólksins, gerði langtímaatvinnuleysi að umtalsefni á Alþingi í dag og vakti athygli á því að samkvæmt skýrslu Vinnumálastofnunar um stöðu og horfur á vinnumarkaði á árunum 2016 til 2018 væri mikill munur á stöðu atvinnulausra eftir aldri. Þannig væri um þriðjungur atvinnulauss fólks á aldrinum 50 ára og eldri langtímaatvinnulaus en einungis áttundi hluti fólks í yngsta hópnum.
„Hvaða sögu má lesa úr þessu um vinnumarkaðinn? Er það virkilega svo að hér ríki eitthvað sem mætti nefna aldursmisrétti á íslenskum vinnumarkaði? Er það virkilega svo árið 2018 að Íslendingar séu haldnir aldursfordómum á vinnumarkaði? Fólk sem missir vinnuna um eða eftir fimmtugt virðist þannig eiga mjög erfitt með að fá vinnu að nýju. Er þetta fólk virkilega úr leik hvað atvinnuþátttöku varðar?“ spurði Karl Gauti.
Benti hann á að margt af þessu fólki væri vel menntað og hefði ennfremur unnið sér inn dýrmæta reynslu sem ætti að öllu eðlilegu að vera afar eftirsóknarverð. Svo virtist hins vegar ekki vera. Þetta væri einnig oft ábyggilegasta starfsfólk hvers vinnustaðar ef horft væri til mætingar og stundvísi. Spurði hann hvort vinnumarkaðurinn væri að hafna fólki sem komið væri yfir miðjan aldur.
„Þetta hefur leitt til þess að nú um stundir ræða menn af kappi nauðsyn þess að færa eftirlaunaaldur ofar og einnig að gera eigi fólki, eins og til að mynda ríkisstarfsmönnum, kleift að vinna lengur en til sjötugs. Hér er eitthvað sem fer ekki saman. Við verðum að taka umræðuna um þetta þarfa málefni sem ég veit að brennur á mjög mörgum og fullyrða má að fjölmörg málefni hafa verið tekin til ítarlegrar umræðu í samfélaginu á undanförnum misserum sem eru léttvægari en einmitt þetta. Er þetta ekki þróun sem þarf að sporna við?“”