Einu sinni var

Dap­urt er að líta í bak­sýn­is­speg­il­inn og sjá niðurrifið og eyðilegg­ing­una sem stjórn­völd hafa kinn­roðalaust látið raun­ger­ast í mörg­um af fal­leg­ustu sjáv­ar­byggðum lands­ins. Kvóta­setn­ing sjáv­ar­auðlind­ar­inn­ar er ein mesta mein­semd Íslands­sög­unn­ar. Ekki nóg með að fáir út­vald­ir fengju gef­ins þúsund­ir tonna af óveidd­um fiski held­ur beit for­heimsk­an haus­inn af skömm­inni og heim­ilaði framsal á öllu sam­an. Við þekkj­um öll sorg­ar­sög­una sem því hef­ur fylgt. Áður blóm­leg­ar sjáv­ar­byggðir hafa fallið í flokk brot­hættra byggða þar sem nán­ast enga at­vinnu er leng­ur að fá.

Ég er fædd og upp­al­in á Ólafs­firði sem áður var blóm­legt sjáv­ar­pláss sem iðaði af orku og lífsþrótti. Þar gátu all­ir sem vildu fengið að vinna eins mikið og þá lysti. Bjart­sýni og bros, upp­bygg­ing og kraft­ur, ein­kenndi Ólafs­fjörð á þeim tíma. Fal­legi bær­inn minn sem hafði vaxið og dafnað jafnt og þétt frá því að þar fór að mynd­ast þétt­býliskjarni und­ir lok 19. ald­ar. Kaupstaðarrétt­indi fékk Ólafs­fjörður árið 1945. Til að öðlast þann rétt þurftu íbú­ar sveit­ar­fé­lags­ins að vera 1.000. Þegar ég flutti að heim­an voru íbú­arn­ir 1.321. Hver hefði trúað því að þann 1. janú­ar 2015 myndi þeim hafa fækkað á 70 árum niður í 782 sam­kvæmt Hag­stofu Íslands?

Smám sam­an færðist all­ur afli burt úr bæj­ar­fé­lag­inu. Sæ­berg, stönd­ugt og glæsi­legt út­gerðarfyr­ir­tæki í eigu ól­afs­firskra stór­laxa, stóð eitt eft­ir. Átti næg­an kvóta og hélt uppi út­gerð í sveit­ar­fé­lag­inu eft­ir að allt annað var horfið á braut. Svo varð gróðinn ekki næg­ur, það þurfti að finna ein­hvern ta­prekst­ur til kaups svo millj­arðaút­gerðin þyrfti ekki að greiða óþarfa krón­ur til sam­fé­lags­ins. Þess sama og hafði fært þeim all­an auðinn. Þeir sam­einuðust Þormóði ramma á Sigluf­irði til að geta bók­fært ta­prekst­ur þess fé­lags sem hafði komið til vegna rækju­brests. Einnig rann fyr­ir­tæki Magnús­ar Gam­alí­els­son­ar inn í sam­steyp­una. Allt þetta sagt gert til hag­kvæmni og meiri auðlegðar fyr­ir bæði Ólafs­fjörð og Siglu­fjörð. Sem nú heit­ir Fjalla­byggð eft­ir sam­ein­ingu sveit­ar­fé­lag­anna sem gekk í gildi þann 11. júní 2006.

Af hverju þessi sögu­stund, kunna ein­hverj­ir að spyrja? Jú, það er vegna þess að núna hef­ur nán­ast all­ur afl­inn sem haldið hef­ur uppi sjáv­ar­út­veg­in­um í Fjalla­byggð verið seld­ur í burtu. Enn og aft­ur hið óafsak­an­lega og fyr­ir­lit­lega framsal að leggja enn eitt sveit­ar­fé­lagið í rúst. Hvenær ætla stjórn­völd að hætta þjónk­un við millj­arðamær­inga og sæ­greifa sem hugsa ekki um neitt annað en að græða og græða meir? Hvenær er nóg komið nóg?

Og nú vill VG kvóta­setja grá­slepp­una.

Flokk­ur fólks­ins seg­ir nei takk, hingað og ekki lengra.

Deila