Endurtökum ekki mistökin. Fólkið fyrst – svo allt hitt

Eftir bankahrunið 2008 náði almenna atvinnu­leysið á Íslandi hámarki þegar það mæld­ist 9,3 pró­sent. Nú spáir Vinnu­mála­stofnun að atvinnuleysi verði töluvert meira en þegar mest var eftir bankahrunið og verði yfir 11% í lok árs. Seðlabankinn spáir einnig enn meiri efnahagssamdrætti en búist var við í lok sumars.

Óttinn við verðbólguskot er því skiljanlegur miðað við reynslu okkar af síðasta efnahagshruni. Þá hækkuðu skuldir heimilanna verulega á skömmum tíma með þeim afleiðingum að fjöldi fólks missti heimili sitt, enda greiðslur af húsnæðislánum ekki í neinu samhengi við þær forsendur sem gefnar voru þegar lánin voru tekin. Bankarnir voru hins vegar algjörlega varðir gagnvart hinum brostnu forsendum lánanna en lántakar berskjaldaðir gegn hamförunum sem fylgdu. 

Enn og aftur erum við í þeirri stöðu að þrátt fyrir að lántakar standi í skilum við skuldbindingar sínar mega þeir búast við því að höfuðstóll lána geti hækkað umtalsvert með litlum fyrirvara. Þrátt fyrir lága vexti og möguleika á endurfjármögnun með töku óverðtryggðra lána geta fjölmargir ekki breytt skuldum sínum með endurfjármögnun vegna atvinnumissis eða annarra ástæðna. Þeir sem skulda verðtryggð lán eru berskjaldaðir gagnvart þessu. Nauðsynlegt er því að vernda heimili landsins fyrir hörðustu áhrifum verðbólguskots. Verðtryggð húsnæðislán taka mið af mánaðarlegum breytingum á vísitölu neysluverðs, sbr. 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu. Flokkur Fólksins leggur til að þak verði sett á vísitölu neysluverðs sem komi í veg fyrir áhrif verðbólguskots á höfuðstól verðtryggðra lána á næstu 12 mánuðum. Með þessu er hægt að tryggja heimili landsins fyrir óvæntu verðbólguskoti á erfiðum tímum. 

Jafnframt er lagt til að verðtrygging húsnæðislána verði alfarið afnumin. Verðtrygging húsnæðislána getur valdið miklum skaða í þjóðfélagi sem býr við sveiflukenndan gjaldmiðil. Það er því nauðsynlegt að leggja bann við töku verðtryggðra húsnæðislána svo að heimili landsins verði ekki fyrir því að missa allt eigið fé sitt í hverri einustu kreppu. Þar sem ekki er hægt að afnema verðtryggingu af gildandi lánum er nauðsynlegt að tryggja að fólk geti endurfjármagnað verðtryggð lán sín. Einnig er brýnt að niðurstöður lánshæfis- og greiðslumats standi ekki í vegi fyrir því að lántaki geti breytt verðtryggðu húsnæðisláni sínu í óverðtryggt lán. Til að liðka fyrir endurfjármögnun er því lagt til að ekki þurfi að fara fram lánshæfis- og greiðslumat þegar neytandi skiptir út eldra verðtryggðu fasteignaláni fyrir óverðtryggt lán.
    

Hér er um mikilvægt mál að ræða sem nauðsynlegt er að komi til framkvæmda sem fyrst, áður en áhrifa verðbólgu fer að gæta og þungi þeirra áhrifa bitnar á heimilum landsins.

Deila