Forgangsmál
Flokkur fólksins ætlar að útrýma fátækt og óréttlæti á Íslandi, svo allir fái lifað mannsæmandi lífi. Lífsgæði eru ekki einkaréttur útvalinna!
Hættum að skattleggja fátækt
- Hækkum skattleysismörk í 450.000 kr. á mánuði hjá þeim sem hafa lágar tekjur með „fallandi persónuafslætti“.
- Fallandi persónuafsláttur virkar þannig að eftir að skattleysismörkum er náð þá lækkar persónuafsláttur í samræmi við tekjuaukningu þar til hann fellur niður við ákveðin efri mörk.
Þannig á sér stað tilfærsla á skattbyrði þar sem hátekjufólk mun missa persónuafslátt sinn til þeirra sem eru tekjulágir og þurfa mest á honum að halda. Þetta gerir okkur kleift að hækka skattleysismörk umtalsvert án þess að skerða verulega tekjur hins opinbera. Hækkun skattleysismarka hefur ekki aðeins áhrif á tekjur fólks á vinnumarkaði, heldur skilar hækkun skattleysismarka einnig auknum ráðstöfunartekjum til lífeyrisþega.
Húsnæði fyrir alla
- Byggjum upp nýtt húsnæðislánakerfi þar sem lögð er áhersla á fasta óverðtryggða vexti og tryggjum þannig fyrirsjáanleika.
- Brjótum upp nýtt land til uppbyggingar húsnæðis í Úlfarsárdal og hröðum uppbyggingu í Keldnaholti og Blikastaðalandi til að binda enda á húsnæðisskort.
- Afnemum húsnæðisliðinn úr vísitölu neysluverðs, því hann heldur verðbólgunni uppi.
- Takmörkum uppkaup fjárfesta á íbúðum og útleigu til ferðamanna.
- Bætum réttaröryggi leigjenda t.d. með leigubremsu.
- Tökum afgerandi skref til að koma á sambærilegu lánaumhverfi og tíðkast í nágrannalöndum okkar með því að afnema verðtryggingu húsnæðislána og draga þannig úr verðbólgusveiflum og sköpum forsendur fyrir lægri vöxtum en ella, neytendum til hagsbóta.
Mannúðlegt almannatryggingakerfi
- Komum á fót nýju almannatryggingakerfi.
- Tryggjum með lögum að öryrkjar og eldri borgarar fái 450.000 kr. á mánuði í ráðstöfunartekjur skatta- og skerðingarlaust.
- Tryggjum að fjárhæðir almannatrygginga og frítekjumarka fylgi framvegis launaþróun eins og hún kemur fram í launavísitölu Hagstofu Íslands.
- Tryggjum öryrkjum skattfrjálsan og skerðingarlausan jólabónus fyrir 1. desember ár hvert.
- Útrýmum óréttmætum búsetuskerðingum.
- Veitum öryrkjum heimild til að prófa sig áfram á vinnumarkaði í tvö ár án skerðinga.
- Tryggjum að aldursviðbótin (áður aldurstengd örorkuuppbót) haldist ævilangt í stað þess að falla niður við 67 ára aldur.
- Afnemum óþörf og íþyngjandi ákvæði laga sem kveða á um að almannatryggingaþegi þurfi að skila inn gögnum um tekjur maka, enda hafi stjórnvöld þegar aðgang að þeim gögnum.
- Lífeyrisþegar erlendis skulu halda persónuafslætti sínum.
- Fellum úr lögum starfsgetumatið, sem ríkisstjórnin lögfesti og mun að óbreyttu taka gildi næsta haust.
Áhyggjulaust ævikvöld fyrir eldra fólk
- Leiðréttum uppsafnaða kjaragliðnun sem myndaðist í stjórnartíð Samfylkingarinnar og ágerðist í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins þannig að kjör eldra fólks verði í samræmi við launavísitölu.
- Tryggjum að fjárhæðir almannatrygginga fylgi launavísitölu.
- Hækkum sérstakt frítekjumark lífeyristekna í 100.000 kr. á mánuði.
- Afnemum skerðingar ellilífeyris vegna atvinnutekna. Það á aldrei að refsa fólki fyrir að vilja vinna.
- Tryggjum hjónum rétt til að búa áfram saman þó svo aðeins annað þeirra fái úthlutað hjúkrunarrými.
- Efnum til stórátaks í byggingu hjúkrunarheimila og útrýmum öllum biðlistum eftir hjúkrunarrýmum.
- Stofnum embætti Hagsmunafulltrúa eldri borgara sem Alþingi hefur þegar samþykkt en ríkisstjórnin neitað að stofna.
- Afnemum virðisaukaskatt af hjálpartækjum, hvort heldur er hjólastólum eða heyrnartækjum.
- Tryggjum jafnrétti lífeyrisþega til persónuafsláttar óháð búsetu.
- Afnemum reglur um skyldu starfsmanna hins opinbera til að hætta störfum við 70 ára aldur. Þeir sem vilja vinna lengur eiga að hafa val um hvort þeir geri það.
- Tryggjum aukið framboð húsnæðis fyrir eldra fólk.
Eflum efnahagsstjórn landsins
- Drögum úr óþarfa útgjöldum ríkisins, svo sem kaupum á dýru skrifstofuhúsnæði og starfshópavæðingu hins opinbera.
- Spörum fjármuni með því að einfalda verkferla hins opinbera og nýta húsnæði sem hentar, í stað þess að leigja dýrasta húsnæðið á markaðnum.
- Við höfum sýnt það í verki að við stöndum gegn bruðli og sjálftöku í rekstri hins opinbera:
- Við sögðum nei við sölu ríkisins á Íslandsbanka
- Við sögðum nei við hækkun krónutölugjalda á tímum verðbólgu
- Við sögðum nei við lækkun bankaskattsins
- Við sögðum nei við styrkjum til einkarekinna fjölmiðla
- Drögum úr óþarfa skriffinnskukröfum ríkisins sem gera einyrkjum, smærri- og meðalstórum fyrirtækjum erfiðara að reka eigin starfsemi.
- Hækkum bankaskattinn og sækjum fé þangað sem nóg er af því fyrir.
Bætt heilbrigðisþjónusta fyrir alla
- Tryggjum fjármögnun heilbrigðiskerfisins en það er eitt stærsta verkefni næstu ára og áratuga.
- Endurskoðum skipulag, verkaskiptingu og nýtingu húsnæðis og mannauðs innan heilbrigðiskerfisins um land allt og tryggjum þannig skilvirkni og hagkvæmni.
- Allir eiga rétt á heilbrigðisþjónustu í og sem næst sinni heimabyggð. Það má aldrei mismuna fólki vegna búsetu.
- Tryggja þarf að kjör og starfsaðstæður allra sem vinna á heilbrigðisstofnunum séu í samræmi við það sem þekkist í nágrannalöndum okkar ef að takast á við langvarandi mönnunarvanda.
- Aðlögum menntakerfið að starfsmannaþörf heilbrigðiskerfisins á komandi árum.
- Leysum útskriftarvanda Landspítalans með þjóðarátaki í uppbyggingu hjúkrunarheimila.
- Höldum gjaldtöku í lágmarki fyrir heilbrigðisþjónustu, nauðsynleg lyf og hjálpartæki.
Geðheilbrigðis- og meðferðarúrræði
- Hefjum án tafar uppbyggingu nýs húsnæðis fyrir geðheilbrigðisþjónustu Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri þar sem engum verður vísað frá sem á hjálp þurfa að halda.
- Aukum fjárveitingar til meðferðarúrræða.
- Byggjum upp heildstætt og manneskjulegt meðferðarúrræði fyrir alla þá sem berjast við fíknisjúkdóminn og þurfa á hjálp að halda.
- Útrýmum öllum biðlistum vegna hvers konar meðferðarúrræða.
- Gerum allt sem í mannlegu valdi stendur til að berjast gegn ótímabærum dauða hundruða ungmenna sem láta lífið á bið eftir hjálp.
- Gerum sálfræðiþjónustu gjaldfrjálsa og aðgengilega öllum þeim sem á þurfa að halda í skólum landsins.
Þjóðin skal njóta auðlinda sinna
- Setjum auðlindaákvæði í Stjórnarskrá Íslands.
- Greiða þarf FULLT VERÐ fyrir aðgang að auðlindunum. Auðlindir landsins eru eign almennings en ekki útvalins auðmannahóps.
- Forgangsröðum orku fyrir heimili landsins og grunninnviði samfélagsins.
- Komum í veg fyrir orkuskort með því að virkja meira og tryggjum sanngjarnt raforkuverð fyrir heimili og lítil fyrirtæki.
- Tryggjum að Landsvirkjun verði ávallt í eigu þjóðarinnar.
- Lögfestum bann við jarðarkaupum erlendra auðjöfra.
Skynsamleg menntastefna
- Við viljum gera kennslu að eftirsóknarverðu starfi með því að bæta kjör kennara og bæta starfsaðstæður þeirra.
- Efla þarf lestrarkennslu og endurskoða áherslur og aðferðir.
- Fjölga þarf kennurum í „skóla án aðgreiningar“ til að stefnan skili tilætluðum árangri, annars þarf að hverfa frá henni.
- Auka þarf aðstoð við nemendur með sérþarfir.
- Efla þarf íslenskukennslu fyrir innflytjendur og börn þeirra.
- Opna þarf móttökudeildir eða móttökuskóla fyrir innflytjendur þar sem þeir fá þjónustu og kennslu við hæfi.
Háskólanám og Menntasjóður námsmanna - Ekki skal takmarka möguleika stúdenta til að vinna með námi. Afnema skal skerðingar námslána vegna tekna námsmanna.
- Upphæð námslána skal endurskoðuð ár hvert með tilliti til verðlagsbreytinga, þróunar leiguverðs og gengisbreytingar.
Ábyrgð í málefnum hælisleitenda
- Aðlögum íslenska löggjöf í málefnum hælisleitenda að löggjöf Norðurlandanna.
- Tökum fulla stjórn á landamærum okkar og tryggjum eftirlit með farþegalistum flugfélaga.
- Veitum stjórnvöldum heimild til að víkja úr landi einstaklingum með alþjóðlega vernd sem fremja glæpi.
Eflum strandveiðar
- Gefum frjálsar handfæraveiðar smábáta.
- Íbúar sjávarbyggða skulu njóta aukins réttar til að nýta sjávarauðlindina með jákvæðum áhrifum á sjávarplássin víðs vegar um landið.
- Lagfærum handónýtt byggðakvótakerfi fjórflokksins.
- Tryggjum strandveiðar í 48 daga á sumrin og bætum við sóknardögum á vorin og haustin. Strandveiðisjómenn skulu sjálfir ráða hvenær þeir róa þessa daga
- Endurskoðum aðferðir Hafrannsóknarstofnunar við fiskveiðiráðgjöf.
- Breytum lögum og kveðum á um að allur afli skuli fara á markað, til að tryggja sanngjarnt uppgjör til sjómanna.