Forvarnir gegn sjálfsvígum ungmenna

Í vikunni lagði ég fram fyrirspurnir sem snúa að forvörnum gegn sjálfsvígum unglinga og ungmenna. Ég var búin að liggja yfir tveimur nýjum skýrslum um þessi mál og þar kom fram að fara ætti í ákveðnar aðgerðir. Flokkur fólksins vill vita hvernig þessi mál snúa að skólum í Reykjavík, hvort einhverra þessara metnaðarfullu tillagna séu í starfholunum?

Fyrirspurnir Flokkur fólksins um hver sé staðan í grunnskólum um aðgerðir sem lýst er í skýrslunum: Aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi og Innleiðing geðræktarstarfs, forvarna og stuðnings við börn og ungmenni í skólum á Íslandi. Í apríl 2018 kom út skýrsla með niðurstöðum starfshóps sem bar heitið Aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi. Ári síðar kom út önnur skýrsla: Innleiðing geðræktarstarfs, forvarna og stuðnings við börn og ungmenni í skólum á Íslandi. Báðar fela í sér metnaðarfullar aðgerðir sem ýmist eru á ábyrgð ríkis, sveitarfélags eða samstarf beggja en sveitarfélögin fara m.a. með stjórnun leik- og grunnskóla, félagsþjónustu og sérfræðiþjónustu skóla. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hver staða ofangreindra aðgerða er, þeirra sem snúa að grunnskólum í Reykjavík t.d. hver sé almennt staðan á innleiðingu tillagna sem settar eru fram í skýrslunum?

  1. Hver er staðan á innleiðingu þrepaskipts stuðnings í skólastarfi (e. multi-tiered systems of support) sem hluta af menntastefnu um skóla án aðgreiningar?
  2. Hver er staða nýrrar Þekkingar- og þróunarmiðstöð áfalla-, ofbeldis- og sjálfsvígsforvarna?
  3. Hver er staðan á tillögunni um að gera úttekt á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar?
  4. Hver er staða á tillögunni um að þróa og innleiða markvissar aðgerðir til að draga úr brotthvarfi úr námi í ljósi þess að brýnt er að skólakerfið sé byggt upp með þeim hætti að markvisst sé unnið frá upphafi skólagöngu að því að hindra brotthvarf úr námi?

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi Flokks fólksins

Deila