Frumvarp um afnám verðtryggingarinnar

Ólafur Ísleifsson er flutningsmaður frumvarps um afnám verðtryggingarinnar sem er borin fram af öllum þingmönnum Flokks fólksins og öllum þingmönnum Miðflokksins.
Athygli vekur, að allir aðrar flokkar á Alþingi vilja halda íslendingum í klóm verðtryggingarinnar ef marka má umræðurnar um frumvarpið. Þingmenn annara flokka þora ekki einu sinni að vera viðstaddir umræðuna.

,,Verðtryggingin hefur staðið allt of lengi hér á Íslandi. 40 ár á næsta ári. Hún hefur staðið allt of lengi án þess að við henni hafi verið hróflað eða fengið nokkurt aðhald. Afleiðingarnar hafa heldur ekki látið á sér standa. Við sjáum meðferðina á heimilum landsmanna. Við sjáum að sínu leyti líka meðferðina á atvinnufyrirtækjum landsmanna sem nota lánsform af þessu tagi. Menn sjá fjölskyldur reknar út af heimilum sínum þúsundum saman, menn sjá þá einstaklinga sem í hlut eiga, feður, mæður og börn, tugþúsundum saman, hrakta út af heimilum sínum vegna þessa fyrirkomulags. Hér eru fjögur einföld atriði tekin upp til að veita þessu fyrirkomulagi aðhald sem er einhvers konar lágmark. Þau eru þessi:

Að óbeinir skattar reiknist ekki inn í vísitöluna, hver og einn greiði bara sína skatta, þeir sem hafa tekið lán til að fjármagna húsnæðiskaup borgi ekki skatta fyrir einhverja aðra; að þessi húsnæðisliður sé ekki eins og þetta gráðuga skrímsli sem hann er og sogi til sín ár eftir ár tugmilljarða á tugmilljarða ofan frá heimilum og atvinnufyrirtækjum landsmanna; í þriðja lagi er endurflutt tillaga sem var stjórnarfrumvarp fyrir nokkrum árum um að þessi eitraði kokteill sem svo hefur verið kallaður, þessi annúítets-lán eða jafngreiðslulán til 40 ára, verði tekin frá mönnum og lánstími þessara lána bundinn við 25 ár.

Og loks að setja þak á vextina í ljósi þess að þessir svokölluðu vextir á verðtryggðum lánum eru ákveðnir við fákeppnisskilyrði, ákveðnir án þess að það sé nokkur viðmiðun erlendis frá. Það er ekkert aðhald með þessum ákvörðunum, ekki aðhald samkeppni, ekki aðhald þess sem felst í að geta bent á erlendar viðmiðanir. En þá þykir það sjálfsagt, m.a. af hálfu síðasta ræðumanns hér, hv. þm. Þorsteins Víglundssonar, að ekki komi til greina að setja neinar hömlur á þetta, þetta eigi bara að vera svona áfram. Hvílíkt úrræðaleysi, hvílíkt kjarkleysi, að ég ekki segi meira.

Mér ofbýður fullkomlega þessi málflutningur. Hefur þingmaður ekki tekið eftir því að Íslendingar hafa náð tökum á verðbólgu? Slíkum tökum að hér hefur verið verðhjöðnun undanfarin ár. Af hverju eru vextirnir enn þá svona háir? Það er af manngerðum ástæðum. Það er náttúrlega stífnin og óbilgirnin í þessari svokölluðu peningastefnunefnd í Seðlabankanum.  Það eru manngerð innflæðishöft sem svo eru kölluð sem standa í vegi fyrir því að hér geti erlendir aðilar fjárfest á íslenskum skuldabréfamarkaði og myndi hafa þau áhrif að vextir myndu snarlækka ef slakað væri á þessum höftum. Hv. þingmaður lætur eins og hann viti ekkert um þetta. Þetta er náttúrlega fráleitur málflutningur sem er ekki boðlegur gagnvart hagsmunamáli heimila og atvinnufyrirtækja landsins.

Þetta frumvarp er borið fram af tveimur þingflokkum, öllum þingmönnum Flokks fólksins og öllum þingmönnum Miðflokksins, og þakka ég öllum meðflutningsmönnum. En þess er að geta að aðrir stjórnmálaflokkar sem eiga sæti hér á Alþingi hafa ekki sýnt sérstaka einbeitni gagnvart verðtryggingunni.

Herra forseti. Það er ekki kostur að skýla sér hér á bak við einhverja háa vexti, á bak við það að hér sé reynt að grípa á þessum vanda, þó að það þurfi lagasetningu til, hvað varðar eitt atriði sem eru þessir vextir, vextir á fjármálalegri skuldbindingu sem hefur einkenni eins og fjármálalegar skuldbindingar af flóknustu gerð, svokallaðar afleiður. Fyrir þessu virðist þingmaður sem tók hér þátt í umræðunni, Þorsteinn Víglundsson, algerlega ónæmur. Ég er helst á því að hann hafi ekki lesið vel þann rökstuðning sem fylgir í greinargerð með þeim tillögum sem hér eru fluttar.

Ég leyfi mér að segja að þó að ég hafi ekki vænst neins annars af þingmanni en að hann sýndi fram á úrræðaleysi sitt og kjarkleysi í þessu máli leyfi ég mér samt sem áður að vona að þetta mál fái stuðning hér á Alþingi í þágu heimila þessa lands og í þágu foreldra og barna sem hafa þurft að þola að vera rekin út af heimilum sínum tugþúsundum saman. Þetta gengur ekki lengur. Það verður að taka á þessu og þetta frumvarp er bara eitt skref í þá átt. Menn munu sjá fleiri frumvörp hér þegar líður á þingveturinn.” Sagði Ólafur Ísleifsson í ræðu sinni.

Frétt þessi var tekin af Fréttatíminn.is

Tengill: https://frettatiminn.is/2018/09/25/thingmenn-flokks-folksins-og-midflokksins-their-einu-a-althingi-sem-leggja-fram-frumvarp-um-ad-afnema-verdtrygginguna/

Deila