Gerum breytingar á lestrarkennslu í grunnskólum

Þingflokkur Flokks fólksins hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar þess efnis að hugmyndafræði verkefnisins Kveikjum neistann verði innleidd í aðalnámskrá grunnskóla.

Verkefnið er langtíma þróunar- og rannsóknarverkefni í Grunnskóla Vestmannaeyja. Í verkefninu felst ný nálgun við lestrarkennslu sem farið hefur fram í 1. bekk grunnskólans.

Í greinargerð sem fylgir tillögunni segir að lesskilningur íslenskra ungmenna hér á landi sé undir meðaltali OECD-ríkjanna og hafi versnað síðustu tíu ár.

Markmið verkefnisins Kveikjum neistann hafi verið að 80–90 prósent nemenda væru fulllæs eftir 2. bekk og fyrstu tölur gefi til kynna góðan árangur. Samkvæmt þeim hafi 93,6 prósent barna í 1. bekk náð markmiðum strax í janúar.

Tillaga Flokks fólksins er þríþætt og lagt er til að við breytingar á námskrá verði lögð áhersla á bókstafa-hljóðaaðferð við lestrarkennslu, að innleiddar verði breytingar á lestrarmælingum og lögð verði áhersla á að hver nemandi fái áskoranir miðað við færni.

Í greinargerð segir einnig að í ljósi þess árangurs sem áunnist hafi af Kveikjum neistann verði mennta- og barnamálaráðherra falið að innleiða hugmyndafræðina og að innleiðingin fari fram í samráði við Rannsóknarsetur um menntun og hugarfar og samtök kennara.

Deila