Gjörðir segja meira en orð

Árið 2018 sam­þykkti Al­þingi frum­varp Flokks fólksins sem felldi niður skerðingar á styrkjum, sem ör­yrkjar og líf­eyris­þegar fá, til að standa straum af kostnaði við út­gjöld vegna veikinda. Með þessu var hætt að skerða líf­eyri vegna hjálpar­tækja­styrkja, lyfja­kaupa­styrkja og bensín­styrkja. Þessi breyting sparar 6.000 ör­yrkjum og eldri borgurum að meðal­tali um 120.000 kr. á ári.

Þegar þetta mál var rætt á Al­þingi viður­kenndi ríkis­stjórnin að þessar skerðingar hefðu aldrei átt að eiga sér stað og sagði þær hafa við­gengist fyrir mis­tök. Þetta kom hags­muna­sam­tökum aldraðra og ör­yrkja tals­vert á ó­vart, enda höfðu þau barist fyrir af­námi þessara skerðinga ára­tugum saman. Sú bar­átta fór greini­lega fram hjá fjór­flokknum.

Árið 2019 vann Flokkur fólksins dóms­mál fyrir hönd elli­líf­eyris­þega. Lands­réttur komst að þeirri niður­stöðu að ríkið hefði brotið gegn eldri borgurum með því að skerða greiðslur til þeirra með aftur­virkri og í­þyngjandi lög­gjöf. Niður­staðan í þessu máli varð til þess að ríkið greiddi 32.000 eldri borgurum um sjö milljarða króna með vöxtum. Við­brögð fé­lags- og barna­mála­ráð­herra við þessari niður­stöðu var ekki af­sökunar­beiðni fyrir lög­brotin. Hann valdi þess í stað að gagn­rýna niður­stöðuna þar sem hann hefði gjarnan viljað fjár­festa þessum peningum í ein­hver önnur verk­efni. Peningum sem ríkið aflaði með ó­lög­mætum skerðingum.

Á þessu ári lagði Flokkur fólksins fram frum­varp um að bætur al­manna­trygginga hækkuðu í sam­ræmi við launa­vísi­tölu, sem hefði komið í veg fyrir vaxandi kjarag­liðnun, meðal annars hjá þeim sem lifa undir lág­marks­fram­færslu­við­miði fé­lags­mála­ráðu­neytisins. Að­eins þing­menn ríkis­stjórnarinnar felldu frum­varpið, allir aðrir þing­menn voru því fylgjandi.

Um það bil 20 þing­mál Flokks fólksins hafa verið svæfð í nefndum frá árinu 2017. Þessi sann­girnis- og rétt­lætis­mál fá ekki einu sinni þing­lega með­ferð. Ríkis­stjórnin vill ekki hleypa málum, mörgum hverjum sam­hljóða kosninga­lof­orðum ríkis­stjórnar­flokkanna, til at­kvæða­greiðslu. Þar segja gjörðir meira en orð.

Deila