Glæpur gegn þjóðinni

Rétt fyrir kosningar skrifuðum við Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR greinina Saga um staðfestan glæp gegn þjóðinni sem fjallar um efni skýrslu sem liggur inni í félagsmálaráðuneytinu og hefur ekki enn fengist birt.

Rétt fyrir kosningar skrifuðum við Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR greinina Saga um staðfestan glæp gegn þjóðinni sem fjallar um efni skýrslu sem liggur inni í félagsmálaráðuneytinu og hefur ekki enn fengist birt.

Í stuttu máli leiðir skýrslan í ljós hversu víðtæk og skelfileg áhrif verðtryggingarinnar á heimilin og þjóðfélagið allt hafa verið.

Hún staðfestir algjörlega málflutning okkar sem barist höfum gegn verðtryggingu neytendalána og sýnir í raun fram á meiri skaða en jafnvel við töldum.

Í stuttu máli staðfestir skýrslan að verðtryggingin hreinlega valdi verðbólgu og háum stýrivöxtum auk þess að hafa gríðarleg áhrif á leiguverð og stöðuga hækkun þess.

Verðtryggingin er þannig ekki nauðsyn vegna verðbólgu, heldur er hún hreinlega einn helsti orsakavaldur hennar og þótt aðrir þættir spili vissulega inn í, þá gerir verðtryggingin bara illt vera.

Verðbólga á Íslandi er ekki náttúrulögmál, hún er heimatilbúin. Hvert og eitt okkar má alveg ímynda sér hvernig lífið hefði verið betra og auðveldara á Íslandi ef verðbólga hefði ekki alltaf verið eins mikil og sagan sýnir.

Fólkið, heimilin í landinu, eru ekki ótæmandi auðlind fyrir fjármálakerfið. Það erum „við“ sem erum þjóðfélagið og það er kominn tími til að stjórnvöld sýni það með því að forgangsraða í „okkar“ þágu, en ekki banka og fjármálafyrirtækja. Hagnaður bankanna fer enn hækkandi. Um mitt ár var samanlagður hagnaður þeirra frá hruni orðinn 900 milljarðar og nú hafa a.m.k. 60 milljarðar bæst við.

Þetta fé verður ekki til úr engu. Það kemur frá okkur, fólkinu í landinu, í formi okurvaxta og verðtryggingar og það er látið eins og þeir sem eiga að gæta hagsmuna fólksins í landinu, séu bara algjörlega valdalausir gagnvart þessu, eins og þetta sé eitthvert náttúrulögmál, en svo er ekki.

Hvernig getur það staðist að fyrirtæki sem sýna stjarnfræðilegan hagnað geti hækkað verðskrána sína?

Athugið að neytendur eru algjörlega varnarlausir gagnvart þessum aðgerðum bankanna, því ef þeir beygja sig ekki undir vöndinn, eru þeir einfaldlega að lokum sviptir heimilum sínum.

Hver er samfélagsleg ábyrgð bankanna í heimsfaraldri?

Hver er samfélagsleg ábyrgð ríkisstjórnar í heimsfaraldri?

Við sem þjóð verðum að vinda ofan af þessari vitleysu og krefjast þess að ráðamenn þjóðarinnar hætti að kyssa vöndinn sem flengir hana og sýgur úr henni allan mátt.

Nú er mál að linni. Hingað og ekki lengra!

Við eigum öll að geta haft það gott í ríku landi.

Heimilin eru ekki fóður fyrir bankana!

Höfundur er þingmaður Flokks fólksins í Suðurkjördæmi.

Deila