Gróður­hús meiri­hlutans

Kolbrún

Á fjár­hags­á­ætlun 2021 til 2025 á­kvað meiri­hlutinn í borginni að eyða 10 milljörðum á næstu þremur árum í staf­ræna þróun á Þjónustu- og ný­sköpunar­sviði Reykja­víkur­borgar (ÞON). Hvorki er skil­greint að heitið geti hvað skal vinna, hverjar verða af­urðirnar né hvernig þær muni nýtast borgar­búum. Fjáraustur til ÞON er mikill. Þjónustu hefur verið út­vi­stað til einka­fyrir­tækja og inn­lend og er­lend ráð­gjafar­fyrir­tæki hafa mikil á­hrif á rekstur sviðsins. Á sama tíma hefur fast­ráðnum kerfis- og tölvunar­fræðingum verið sagt upp. Vissu­lega er nauð­syn­legt að ráðast í staf­ræna þróun á þjónustu borgarinnar til að hún verði að­gengi­leg og um­hverfis­væn.

Dæmi um staf­rænt verk­efni þar sem rennt er blint í sjóinn með hvort þjónusta batni eða auki hag­ræðingu er hið svo­kallaða „Gróður­hús“. Utan um „Gróður­húsið“ hefur verið rekin sér­stök skrif­stofa í á þriðja ár. „Gróður­húsinu“ hefur verið lýst með eftir­farandi hætti:

Þegar þú mætir í Gróður­húsið ertu í raun að sam­þykkja að henda þér út í ein­hvern prósess, eitt­hvað ferli. Það mun svo leiða þig eitt­hvert. Það mætti segja að Gróður­húsið ein­blíni 90% á ferlið, og svona 10% á út­komuna. Eitt stærsta verk­efnið er að sam­stilla teymið, hjálpa fólki að vinna saman og taka á­kvarðanir. Út­koman sjálf skiptir þannig séð ekki höfuð­máli.“
Segja má að „Gróður­húsið“ sé sam­nefnari yfir kostnaðar­söm staf­ræn til­rauna­verk­efni sem ekkert á­þreifan­legt hefur komið út úr. Á meðan veittir eru milljarðar króna í staf­ræn til­rauna­verk­efni bíða 957 skóla­börn eftir fag­þjónustu m.a. sál­fræðinga og tal­meina­fræðinga. Hluti þessa fjár­magns kæmi sér vel til að bæta þjónustu við börn, eldri borgara og ör­yrkja.

Full­trúi Flokks fólksins hefur gagn­rýnt fjáraustur sem fer um­fram það sem teljast má nauð­syn­legt og eðli­legt til staf­rænna um­breytinga. Reykja­víkur­borg er ekki einka­fyrir­tæki á al­þjóða­markaði, heldur sam­fé­lag sem þarf að reka skyn­sam­lega. Gagn­rýn hugsun og heil­brigð skyn­semi þarf að vera til staðar hjá þeim sem eiga að axla á­byrgð. Rauð ljós eru fyrir löngu farin að blikka.

Eftir Kolbrúnu Baldursdóttur

Deila