Guðmundur Ingi algjörlega ósammála Bjarna

„Ég þakka hæstvirtum fjármálaráðherra svarið en verð að vera algjörlega ósammála honum. Það er grafalvarlegt mál að hafa ekki efni á að leita sér læknisþjónustu. Það er grafalvarlegt og getur orðið þjóðfélaginu margfalt dýrara en ella. Það er sannað að ef fólk getur ekki leitað sér læknishjálpar, hvort sem er við geðrænum vanda eða öðrum, bitnar það á þjóðfélaginu sem og á heilbrigðiskerfinu og verður margfalt dýrara. Ég held hreinlega að það ódýrasta og besta sem við gætum gert núna væri að segja við alla sem eru atvinnulausir, alla sem eru á lífeyrislaunum, að þeir fái ókeypis læknisþjónustu. Gerum þetta. Ég skal veðja við ykkur að það margborgar sig.“

Þetta sagði Guðmundur Ingi Kristinsson Flokki fólksins.

„Það getur verið mjög dýrt fyrir samfélagið að vanrækja þennan málaflokk. Ég tel að ekki hafi áður verið gert jafn mikið átak í þeim málaflokki og í tíð þessarar ríkisstjórnar sem birtist mjög skýrlega í stjórnarsáttmálanum og í fjárlagatillögum undanfarinna ára,“ sagði fjármálaráðherrann Bjarni Benediktsson á Alþingi.

Guðmundur Ingi sagði einnig „Um 540 milljónir fara til geðræktar með fjölgun lækna, starfsfólks o.s.frv. Það er ekki ódýrt að leita sér hjálpar hjá geðlækni og stór hópur hefur ekki efni á því, hefur ekki efni á mat, hefur ekki efni á lyfjum, hefur ekki efni á að fara til læknis, hvað þá geðlæknis. Stendur til á sama tíma að t.d. allir þeir sem eru undir 400.000 kr. fái ókeypis læknisþjónustu, bæði venjulega læknisþjónustu og sérstaklega geðþjónustu? Það segir sig sjálft að það getur orðið rándýrt bæði fyrir þjóðfélagið og heilsuna að geta ekki leitað sér geðrænnar hjálpar.“

Bjarni hefur ekki mestar áhyggjur af auraleysi fólks. Að fólk hafi ekki efni á að leita sér læknis:

„Það er ekki sú hætta að jafnvel fólk með lágar tekjur hafi hreinlega ekkert aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu eins og áður var. Ég held að miklu frekar sé ástæða til að hafa áhyggjur af mönnun í þessum geira en of lítilli niðurgreiðslu stjórnvalda,“ sagði hann.

Guðmundur Ingi Kristinsson alþingismaður og varaformaður flokks fólksins

Deila