Hættið að skattleggja fátækt!

Inga Sæland alþingismaður og formaður Flokks fólksins í púlti alþingis:

“Virðulegi forseti. Það voru ákveðnar væntingar sem verkalýðurinn hafði í gær til þess útspils sem lengi hefur verið beðið eftir af hendi ríkisstjórnarinnar. 18 milljarða, segir hv. þm. Jón Gunnarsson, skattalækkun til þeirra sem höllustum fæti standa. Hvað þýðir þetta? 6.500 kr. á mánuði, 80.000 kr. á ári. Ætli þessi forgangsröðun fjármuna upp á 18 milljarða kr. skili sér í samræmi við þær væntingar sem verkafólkið okkar hafði til ríkisstjórnarinnar? Ég held að svarið sé augljóst: Nei.

Á sama tíma virðist vera algjörlega ómögulegt að þeir sem hér sitja, hv. alþingismenn, geti sýnt í verki að þeir geti mögulega sett sig í spor fátæks fólks sem nær ekki endum saman eftir 10. og 20. hvers mánaðar. Þess vegna spyr maður: Er þetta grín með 6.500 kr. kjarabót á mánuði með þessum skattalækkunum? Það er enn verið að skattleggja fátækt. Nú er sárafátæktin byrjuð að skattleggjast við 160.000 kr. á mánuði.

Það er einungis verið að fara fram á réttlæti, jöfnuð og að hætt verði að skattleggja fátækt um leið og ákallið var líka eftir því að draga þennan andstyggðarhúsnæðislið út úr vísitölunni sem hefur kostað íslensk heimili um 118 milljarða kr. á fimm ára tímabili.

Ég segi: Betur má ef duga skal. Því miður eru horfurnar ekki bjartar fram undan þegar kemur að því að hugsanlega förum við að horfast í augu við alvarlegt ástand úti í samfélaginu sem mun þá líka kosta okkur meiri fleiri krónur en okkur órar fyrir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)”

 

 

Deila