Heitt kakó bara fyrir suma

Formaður Samfylkingarinnar hefur áttað sig á því að heitt kakó stendur ekki öllum til boða. Þetta segir hann í auglýsingu sem sjá má á netinu. Og það er rétt, það geta ekki allir leyft sér þann munað að ylja sér við heitan drykk. Allt að 5.000 börn búa við fátækt og sum við sára fátækt. Foreldrar þeirra eiga ekki fyrir mat. Þrátt fyrir að borgarstjóri sé einnig í Samfylkingunni og taki án efa undir orð formannsins þá studdi hann ekki tillögu Flokks fólksins um fríar skólamáltíðir í grunnskólum Reykjavíkur. Samfylkingin kaus einnig gegn tillögum um lækkun gjalds fyrir skólamáltíðir og tekjutengingu gjalda vegna skólamáltíða.

Með því að tekjutengja gjöld af þessu tagi er hægt að tryggja að það fólk sem virkilega þarf á aðstoð að halda geti greitt fyrir skólamáltíðir barna sinna. Ekki þótti Samfylkingunni tilefni til þessa aðgerða.

Það er alla vega ekki annað hægt að segja en að Flokkur fólksins hafi reynt allt til að tryggja að ekkert barn þurfi nokkurn tíma að vera svangt í skóla. Vandinn er sá að Flokkur fólksins er í minnihluta bæði í borgarstjórn og á Alþingi. Fátækt á sér margar birtingarmyndir. Enda þótt við sjáum ekki grátandi börn á götunni að betla, þá eru allt of margir sem eiga ekki fyrir mat á borðið eða öruggu húsaskjóli. Sumir eru á vergangi með börnin sín. Flokkur fólksins vill setja málefni þeirra verst settu efst á forgangslista borgarinnar og hjá ríkisstjórninni.

Fjöldi fólks hefur undanfarið misst atvinnu og ekki má gleyma því fólki sem bjó í fátækt löngu fyrir komu COVID. Ef Samfylkingin hyggst beita sér í þágu fátækra á Alþingi þá á hún einnig að beita sér í þeim efnum í Reykjavík þar sem hún fer með völdin. Enginn á að þurfa að vera fátækur í Reykjavík.

Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi Flokks fólksins

Deila