Yfir 30% fatlaðs fólks á Íslandi berjast um í rammgerðri fátæktargildru sem þau geta með engu móti brotist úr. Þetta kemur fram í kolsvartri skýrslu sem Varða – Rannsóknastofnun vinnumarkaðarins framkvæmdi í samstarfi við Öryrkjabandalag Íslands. 70% fatlaðs fólks á Íslandi geta ekki mætt neinu sem heitir óvænt útgjöld öðruvísi en að stofna sér í skuldir. Yfir 50% búa við versnandi fjárhagsstöðu miðað við árið í fyrra. Um 50% neita sér um allt félagslegt vegna fjárhagsstöðu, þau geta aldrei gert sér dagamun með börnunum sínum. Þetta er fólkið okkar sem hlustar á jólaauglýsingarnar um hlaðborðin og tónleikana en fær aldrei að njóta. Fátækt fólks sem getur ekki mætt grunnþörfum barna sinna. 40% neita sér um nauðsynlegan klæðnað og næringarríkan mat.
Tæplega 90% einhleypra mæðra geta ekki mætt neinum aukaútgjöldum án þess að stofna til skulda. 40% þeirra þurfa að leita á náðir hjálparstofnana eftir mataraðstoð. 50% einhleypra foreldra geta ekki veitt börnum sínum nauðsynlegan klæðnað eða næringarríkan mat. Þau geta heldur ekki kostað þátttöku barna sinna í íþróttum né nokkru öðru. 60% einhleypra foreldra eru að bugast undan húsnæðiskostnaði og standa ekki undir honum. 80% einhleypra foreldra búa við slæma andlega heilsu. Hátt hlutfall þessa fólks hefur nær daglega hugsað um að taka eigið líf. 60% búa við félagslega einangrun og 40% neita sér um tannlækna- og sálfræðiþjónustu vegna fátæktar.
Á sama tíma bíða rúmlega 700 sjúklingar á biðlista eftir læknisþjónustu á sjúkrahúsinu Vogi og mörg hundruð fárveikir einstaklingar með fíknisjúkdóm eru á biðlista eftir meðferð á Hlaðgerðarkoti og í Krýsuvík. Vitað er að um hundrað einstaklingar munu deyja í ár úr fíknisjúkdómnum. Ríkisstjórnin aðhefst ekkert þeim til bjargar. Þvert á móti hefur hún fellt allar tillögur Flokks fólksins um aukið fjármagn til þeirra stofnana sem geta bjargað lífi þeirra. Þetta er sama ríkisstjórnin sem sífellt neitar sárafátæku fólki um hjálp.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í september árið 2017 að það að láta fátækt fólk bíða eftir réttlætinu væri það sama og að neita því um réttlæti.
Þetta er ríkisstjórn auðmanna og hræsnara sem kunna ekki að skammast sín. Sýnir fólkinu sem þau voru kjörin til að vernda og verja með öllum tiltækum ráðum ekkert annað en fyrirlitningu og fordóma.
Þegar Flokkur fólksins kemur með tillögur til úrbóta fellir ríkisstjórnin þær allar. Við skulum átta okkur á því að byrðin sem fólkið okkar er að bugast undan er í boði ríkisstjórnarinnar.
Ég fyrirlít þessa ríkisstjórn, hún á það svo sannarlega skilið.