Hræsni og framfærsluviðmið

Eyjan birti í gær frétt um uppfærð neysluviðmið ríkisins, en sú uppfærsla var sú áttunda í röðinni frá 2011. Vakti fréttin mikla athygli, enda fæstir sem vilja falla innan þeirra viðmiða, ekki síst þegar haft er í huga að húsnæðisverð er ekki reiknað inn í þau.

Ömurleg hræsni

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, deilir frétt Eyjunnar og segir þau vondan málstað að verja:

„Það er ekki erfitt að sjá hvers vegna framfærsluviðmiðið var fært niður. Það hlýtur að vera vondur málstaður að verja sem félags og barnamálaráðherra þegar lágmarksframfærsluviðmið ráðuneytisins er miklu hærra en það sem tug þúsundum landsmanna er ætlað að lifa af. Þess vegna verður að lækka það á pappírunum, sýna að það sé jú lægra en lægsta framfærsla. Þetta er vægast sagt ömurlegt og með hreinum ólíkindum að bjóða upp á slíka hræsni. Við skulum heldur ekki gleyma að húsnæði er ekki talið með. Sá liður sem er einstaklingum og fjölskyldum lang erfiðastur og kostnaðarsamastur.“

Beðið eftir réttlæti

Inga rifjar af þessu tilefni upp ræðu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra við stefnuræðu þáverandi forsætisráðherra, Bjarna Benediktssonar, árið 2017, þegar Katrín var í stjórnarandstöðu. Þá sagði hún í ræðu sinni:

„Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlæti. Núverandi áætlanir þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr gera ráð fyrir því að öryrkjar og aldraðir eigi að halda áfram að hokra og búa við skammarleg kjör. Það á að bjóða atvinnulausu fólki með fullan bótarétt upp á 217.000 kr. á mánuði. Lægstu laun á Íslandi standa enn í 280.000 kr. Þau duga ekki til framfærslu. Og fólk á lægstu launum er beðið að vera þakklátt fyrir 20.000 kr. því að hlutfallslega sé það nú ekki lítið. „Því miður þarf að bíða aðeins með réttlætið fyrir þig,“ er viðkvæðið, „en allt stendur þetta til bóta.“ Þegar þetta fátæka fólk er beðið um að bíða eftir réttlætinu er verið að neita því um réttlæti“

Deila