Huldunefnd Tryggingastofnunar Ríkisins

Í gær var ég pirraður og reiður út í skerðingar vegna dráttarvaxta hjá öryrkjum. Í dag er ég sár og svekktur vegna þess að við tryggjum ekki að öryrkjar sem eiga sinn rétt viti um réttindi sín. Í 9. gr. almannatryggingalaga segir að Tryggingastofnun ríkisins eigi að veita almenningi þjónustu og ráðgjöf um réttindi og skyldur samkvæmt þeim lögum sem stofnunin starfar eftir ráðgjöf um réttindi og kynna almenningi réttindi sín með upplýsingastarfsemi.

Það er til huldunefnd hjá Tryggingastofnun ríkisins sem getur fellt niður ósanngjarnar og fáránlegar kröfur um endurgreiðslur, eins og hún hefur gert nú þegar í um 80 málum sem fóru til hennar út af dráttarvöxtum. En fólk þarna úti veit ekkert af þessu. Það veit heldur ekki af því að hægt er að dreifa einu sinni, bara einu sinni, þessum greiðslum á tíu ár. Frítekjumörkin eru 98.000 kr. af fjármagnstekjum. Á tíu árum erum við að tala um milljón. Fólk veit heldur ekki af því að ríkisskattstjóri getur dreift þessu sex ár aftur í tímann. En það sem er kannski fáránlegt í þessu öllu er að dreifingin á tíu ár hjá Tryggingastofnun ríkisins gildi bara einu sinni. Þú getur bara gert það með eitt mál.

Það er alveg með ólíkindum að það skuli vera í boði fyrir þetta fólk. Ég gerði stutta könnun hjá fólki sem er að berjast þarna úti og að það skuli vera dæmi um að fólk þurfi að borga 100.000 kr. í lyf, lækni, sjúkrabíl og komu á bráðadeild og hefur ekki efni á tannlækningum, það hefur ekki efni á fatnaði, það á ekki einu sinni spariföt. Þetta sama fólk fær ekki upplýsingar hjá Tryggingastofnun ríkisins um réttindi þess. Ég spyr: Til hvers erum við að setja lög og reglur hérna ef við getum ekki séð til þess að fólk fái þær upplýsingar í rauntíma og það strax?

Guðmundur Ingi Kristinsson alþingismaður og varaformaður flokks fólksins

Deila