Hvort heldur sem er

Inga Sæland

Fyrr í vik­unni birt­ist á sama stað í Morg­un­blaðinu pist­ill eft­ir Helgu Völu Helga­dótt­ur. Pist­ill­inn fjallaði um nauðsyn þess að koma á lagg­irn­ar embætti umboðsmanns aldraðra. Helga minnt­ist þess að slík­ar til­lög­ur hefðu komið fram á Alþingi fyr­ir nokkr­um árum en ekki náð fram að ganga og sagði að nú væri til­efni til að rifja þær upp á ný.

Ég er henni hjart­an­lega sam­mála að þörf sé á stofn­un slíks embætt­is. Ég tel þó enga þörf á upp­rifj­un, enda hef­ur Flokk­ur fólks­ins lagt fram þings­álykt­un­ar­til­lög­ur um stofn­un slíks embætt­is síðustu þrjá þing­vet­ur. Til­lag­an ligg­ur nú inni í vel­ferðar­nefnd og bíður þar af­greiðslu. Því vek­ur það furðu mína að Helga Vala, formaður vel­ferðar­nefnd­ar, virðist ekki þekkja málið. Mögu­lega ligg­ur vand­inn í því að til­laga Flokks fólks­ins nefn­ir embættið hags­muna­full­trúa en ekki umboðsmann. Ég ætla þó að vona að slíkt forms­atriði komi ekki í veg fyr­ir stuðning henn­ar við það. Ljóst er að um sams­kon­ar embætti er að ræða. Í til­lögu Flokks fólks­ins seg­ir m.a. um hlut­verk hags­muna­full­trúa: „Hags­muna­full­trúa aldraðra er ætlað að vekja at­hygli á rétt­inda- og hags­muna­mál­um aldraðra al­mennt, jafnt á op­in­ber­um vett­vangi sem hjá einkaaðilum, leiðbeina öldruðum um rétt­indi sín og bregðast við telji hann að brotið sé á þeim.“

Öll vilj­um við eiga áhyggju­laust ævikvöld. Því miður er raun­in önn­ur hjá alltof mörg­um. Eft­ir því sem við eld­umst þurf­um við sí­fellt oft­ar að glíma við hið op­in­bera, meðal ann­ars al­manna­trygg­ing­ar, líf­eyr­is­rétt­indi, aðgengi að heil­brigðisþjón­ustu og fleira. Stjórn­völd­um ber að taka til­lit til aldraðra og sníða op­in­bera þjón­ustu al­ger­lega að þörf­um þeirra. Ekki er langt um liðið síðan ríkið skerti elli­líf­eyr­is­greiðslur með ólög­mæt­um aft­ur­virk­um hætti. Í stað þess að viður­kenna mis­tök­in og bæta fyr­ir þau barðist ríkið af hörku. Flokk­ur fólks­ins átti frum­kvæði að því að dóms­mál var höfðað gegn rík­inu og þurfti á end­an­um að leita til Lands­rétt­ar til að fá mis­tök­in leiðrétt. Eldri borg­ar­ar eiga skilið virka rétt­inda- og hags­muna­gæslu og hafa mikla þörf fyr­ir hana, eins og dæm­in sanna.

Til­laga Flokks fólks­ins um hags­muna­full­trúa aldraðra hef­ur ít­rekað farið fyr­ir vel­ferðar­nefnd Alþing­is og þangað hafa borist marg­ar já­kvæðar um­sagn­ir um málið. Þrátt fyr­ir það hef­ur til­lag­an aldrei losnað úr prísund nefnd­ar­inn­ar. Því er það mikið fagnaðarefni að heyra, að formaður nefnd­ar­inn­ar vilji veita málstaðnum liðsauka. Nú gefst Helgu Völu kjörið tæki­færi til að standa við stóru orðin og beita sér fyr­ir því að til­lag­an verði af­greidd úr vel­ferðar­nefnd til síðari umræðu á Alþingi og at­kvæðagreiðslu.

Inga Sæland

Deila