Kolbrún Baldursdóttir: “Bókunarvald minnihlutans ekki virt á fundum”

Að gefnu tilefni fannst mér ég knúin til að leggja fram bókun í borgarráði um hversu langt meirihluti borgarinnar hefur stundum gengið til að hafa áhrif á hvernig borgarfulltrúar minnihlutans bóka í hinum ýmsu málum á lokuðum fundum eins og í borgarráði.

Borgarfulltrúa Flokks fólksins þykir fulltrúar meirihlutans oft ganga allt of langt í að reyna hafa áhrif á bókanir fulltrúa minnihlutans og gert það með alls kyns ráðum. Bæði með því að gagnrýna efni bókana harðlega og sýna hneykslun og jafnvel fyrirlitningu í öllu sínu viðmóti og jafnvel ákveðnu atferli í verstu tilfellum. 

Borgarfulltrúi vill minna á að bókunarvald borgarfulltrúa er ríkt.  Bókanir eru af ýmsu tagi eins og gengur, vissulega stundum harðorðar enda málin mörg alvarleg eins og dæmin hafa sýnt undanfarna mánuði. Upp úr djúpinu hafa mörg mál komið fram sem hafa ekki einungis misboðið minnihlutanum heldur einnig mörgum borgarbúum. Mörg þessara mála hafa verið efni frétta í fjölmiðlum ítrekað, á öllum fjölmiðlum, ríkisfjölmiðlum sem öðrum, á samfélagsmiðlum og í umræðunni almennt séð.
Þar hefur málum verið lýst í smáatriðum með upplýsingum um nöfn í þeim tilfellum sem þau eru opinber. Í bókunum sem hér er vísað til er einungis verið að bóka um mál sem eru á dagskrá og í engu tilfelli er verið að upplýsa um neitt nýtt sem ekki hefur verið fjallað um opinberlega. Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir kröfu um að meirihlutinn láti af afskiptum sínum hvað varðar efni bókana enda eiga þau þess kost að gagnbóka óski þau þess.

Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi Flokks fólksins

Deila