Lágmarksréttlæti, lágmarkssanngirni

“Virðulegi forseti. Ég er hálflömuð eftir að hæstv. fjármálaráðherra þrumaði yfir okkur áðan. Hann talaði um súrefnisflæði til þeirra sem verst eru staddir. Ég veit ekki eiginlega hvaða tregða er á þeirri slöngu en a.m.k. hlýtur það súrefni að vera illa blandað með einhverju andrúmslofti sem láglaunafólk hér kærir sig ekki um að draga að sér.

Hann talar um 80.000 kr. sem eigi að setja til lægstu hópanna í samfélaginu á næstu fjórum árum, um 20.000 kr. á ári. Ég er eiginlega algjörlega orðlaus. Það er ekki eins og við séum að tala um, hæstv. fjármálaráðherra, að krefjast einhvers meira til handa þeim sem berjast í bökkum. Það er verið að tala um lágmarksréttlæti, lágmarkssanngirni, það er eingöngu verið að tala um að fólk geti lifað hérna þokkalega og náð saman endum á milli mánaða.

Við hér erum með á bilinu 1,1–2 millj. kr. á mánuði og það erum við sem ákveðum hvernig þeir sem verst hafa það í samfélaginu koma til með að hafa það áfram. Mér finnst dapurlegt að standa hér og mér finnst dapurlegt að horfa upp á að hér er talað um komandi kulnun í hagkerfinu. Hér á líka hugsanlega að fara að blása til verkfalla úti í samfélaginu. Hvað mun það kosta samfélagið ef við getum ekki komið betur til móts við þá sem þurfa virkilega á því að halda?

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hvers vegna í veröldinni er endalaust verið að tala um að koma til móts við þá sem lægst eru settir og láta síðan þessa skattalækkun svokallaða ganga líka til þeirra sem hafa akkúrat ekkert með hana að gera?”

 

Deila